Ísland leiðir ríkjahóp um sprengjuleit og -eyðingu ásamt Litáen
Ísland er í hópi 20 ríkja sem hyggjast styðja Úkraínu við sprengjuleit og -eyðingu og var viljayfirlýsing þess efnis undirrituð í Brussel í gær í tengslum við varnarmálaráðherrafund Atlantshafsbandalagsins.
Hópurinn mun halda utan um stuðning við Úkraínu sem snýr að sprengjuleit- og eyðingu m.a. fjármögnun verkefna, þjálfun og kaup á búnaði. Litáen leiðir hópinn í samstarfi við Ísland sem mun ásamt öðrum taka þátt í stjórn og ráðgjafaráði hópsins sem kemur til með að marka stefnu um verkefni sem unnið verður að.
„Það er mikill heiður fyrir okkur Íslendinga að taka þátt í að leiða þetta gríðarlega mikilvæga verkefni fyrir Úkraínu ásamt Litáen sem er náin vinaþjóð okkar. Þekking okkar kemur til með að bjarga lífum Úkraínumanna á vígvellinum í varnarstríði þeirra gegn Rússum,“ segir Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. „Hér sannast enn á ný hvernig smáar þjóðir á borð við okkar geta lagt sitt af mörkum til að styðja við Úkraínu.“
Ísland hefur í samstarfi við Norðurlönd og Litáen haft forgöngu um þjálfunarverkefni fyrir Úkraínu í sprengjuleit og -eyðingu frá því síðla árs 2022 og fer þjálfunin fram í Litáen. Séraðgerðadeild Landhelgisgæslunnar heldur utan um þjálfunarverkefnið ásamt utanríkisráðuneytinu.