Nýtt heimili á Akureyri fyrir börn og ungmenni í neyð
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur samið við Akureyrarbæ um að setja á stofn og reka greiningar- og þjálfunarheimili fyrir börn og ungmenni í neyð. Um tilraunaverkefni er að ræða til að bregðast við brýnni þörf fyrir bættum úrræðum í barnavernd á Norðausturlandi.
Með úrræðinu verður hægt að styðja við allt að 12 börn og ungmenni á ári sem yrðu vistuð á greiningar- og þjálfunarheimilinu í allt að 8 vikur. Markmið með úrræðinu er að veita inngrip til skamms tíma þegar hefðbundin úrræði duga ekki til. Á heimilinu fer fram greining á vandanum og einstaklingsmiðuð þjálfun sem miðar að því að styrkja forsjáraðila í uppeldishlutverki þeirra og aðstoða börn og ungmenni svo þau geti snúið aftur heim.
Leitast er við að grípa fyrr inn í mál barna og ungmenna en áður og koma þannig í veg fyrir að vandi þeirra vaxi og kalli á umfangsmeiri úrræði, svo sem langtímavistun fjarri heimabyggð, og leiði til áhættuhegðunar.
Á heimilinu verða að lágmarki tveir faglærðir starfsmenn sem leiða faglegt starf úrræðisins undir stjórn forstöðumanns barnaverndarþjónustu Eyjafjarðar og handleiðslu Barna- og fjölskyldustofu. Velferðarsvið Akureyrarbæjar annast framkvæmdina og felur verkefnastjóra skipulag á daglegum rekstri og starfi heimilisins.
Stuðningur mennta- og barnamálaráðuneytisins nemur 54 m.kr. til byrjun næsta árs. Metinn verður árangur af störfum heimilisins á samningstíma og framhald verkefnisins ákvarðað út frá ávinningi en horft er til verkefnisins sem tilraunaverkefni til tveggja ára.