Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Anna Jóna og Valgerður heiðraðar á degi íslensks táknmáls

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra afhenti Önnu Jónu Lárusdóttur sérstaka heiðursviðurkenningu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra (SHH), fyrir framlag til varðveislu íslensks táknmáls. Þetta er í fyrsta skipti sem viðurkenningin er afhent.

Þýðing á ÍTM má finna neðst í fréttatilkynningunni. 

Afhendingin fór fram á sérstakri hátíðardagskrá sem SHH skipulagði í tilefni af degi íslensks táknmáls, 11. febrúar. Í þingsályktunartillögu sem ráðherra hefur mælt fyrir á Alþingi Íslendinga er gerð tillaga að því að þessi dagur verði fánadagur.

Ómetanlegt framlag

„Anna Jóna Lárusdóttir fæddist á Akureyri þann 29. september 1950. Fjögurra ára gömul fór hún á heimavist í Heyrnleysingjaskólanum og lauk unglingaprófi þaðan árið 1966. Hún hafði þá numið íslenskt táknmál af skólafélögum sínum. Anna Jóna hefur verið öflug í félagsstarfi og hagsmunabaráttu döff fólks en hún gegndi formennsku Félags heyrnarlausra um árabil og sat í stjórn félagsins og félagi Döff 55+ í fjölda ára.

Anna Jóna hefur sótt ýmis námskeið í táknmálsfræði og táknmálskennslu bæði hérlendis og erlendis og sinnti hún kennslu í íslensku táknmáli, á vegum Heyrnleysingjaskólans, Vesturhlíðarskóla, Samskiptamiðstöðvar og Hlíðaskóla, og kenndi ýmist döff börnum og fullorðnu heyrandi fólki. Þónokkrar upptökur eru til af Önnu Jónu sem notaðar hafa verið til kennslu á vegum Samskiptamiðstöðvar og Háskóla Íslands,“ segir meðal annars um Önnu Jónu.

„Framlag þitt til varðveislu ÍTM er ómetanlegt Anna Jóna – fjársjóður sem komandi kynslóðir geta leitað í, séð áhugaverðar sögur og rannsakað íslenskt táknmál. Framlag þitt er dýrmætur hluti af sagnaarfi táknmálsfólks og veitir táknmálsbörnum sýn inn í reynsluheim táknmálsfólks fortíðar og nútíðar og eflir sjálfsmynd þeirra til framtíðar,“ sagði ráðherra meðal annars, þegar hún afhenti Önnu Jónu viðurkenninguna.

Fyrsta heildstæða yfirlitið

Ráðherra afhenti einnig viðurkenningu dags íslensks táknmáls fyrir hönd Málnefndar um íslenskt táknmál. Viðurkenninguna hlaut Valgerður Stefánsdóttir fyrir ómetanlegt framlag sitt til íslensks táknmáls og málsamfélags þess. Þetta er í fyrsta skipti sem viðurkenningin er afhent.

„Valgerður var fyrsti formaður málnefndar um íslenskt táknmál og gegndi því starfi í tæp sex ár. Valgerður var einnig fyrsti forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra frá stofnun og til ársins 2019. Þar á undan hafði Valgerður verið bæði kennari döff barna og táknmálstúlkur. Verkefni Valgerðar á sviði íslensks táknmáls eru ótal mörg, hvort sem um ræðir nefndarstörf, stjórnunarstörf, kennslu eða miðlun – allt verkefni sem hún hefur af alhug unnið til að efla og styðja íslenskt táknmál og málsamfélag þess. Eitt af hennar stærstu framlögum til samfélags íslensks táknmáls eru rannsóknir og miðlun þeirra,“ segir meðal annars um Valgerði.

„Valgerður varði í desember síðastliðinn doktorsritgerð í mannfræði við Háskóla Íslands sem er frumkvöðlarannsókn og fyrsta heildstæða yfirlitið hérlendis yfir íslenskt táknmál og þróun döff menningar. Doktorsritgerðin er ómetanleg heimild fyrir komandi kynslóðir um uppruna og þróun íslensks táknmáls og fólkið sem bjó það til, döff Íslendinga,“ sagði ráðherra meðal annars við afhendinguna.

Hlutverk málnefndar um íslenskt táknmál er að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál og stuðla að eflingu og notkun málsins í íslensku þjóðlífi. Málnefndin minnir á íslenskt táknmál þar sem við á, vinnur að því að gera það sýnilegt og að kröfur séu gerðar við notkun þess.

Kristín Lena Þorvaldsdóttir, forstöðumaður SHH, hélt erindi á viðburðinum um varðveislu íslenska táknmálsins en stofnunin er málstöð íslensks táknmáls og hefur frá upphafi lagt áherslu á að varðveita og skapa upptökur af málinu og nýta til rannsókna og kennslu.

Fundarstjóri var Uldis Ozols og sagði hann meðal annars frá Táknmálseyju – málörvunarverkefni fyrir táknmálsbörn á SHH. Á viðburðinum flutti táknmálssöngkonan Kolbrún Völkudóttir Baráttusöng barnanna úr leikritinu Fíasól gefst aldrei upp, í eigin þýðingu á íslensku táknmáli.

  • Anna Jóna og Valgerður heiðraðar á degi íslensks táknmáls - mynd úr myndasafni númer 1
  • Anna Jóna og Valgerður heiðraðar á degi íslensks táknmáls - mynd úr myndasafni númer 2

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta