Ungmennaráð heimsmarkmiðanna átti fund með heilbrigðisráðherra
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fundaði í dag með fulltrúum ungmennaráðs heimsmarkmiðanna. Á fundinum afhentu þau ráðherra tillögur frá börnum og ungmennum um ýmis verkefni sem snerta heilbrigði barna og ungs fólks um allt land. „Þetta var virkilega gagnlegur og skemmtilegur fundur með þessum flottu fulltrúum yngri kynslóðarinnar. Þau hafa sterkar skoðanir, þau vilja hafa áhrif, þau hafa brennandi áhuga á aðgerðum stjórnvalda, sjálfbærri þróun og eru afar vel að sér um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Það býr mikill kraftur í þessum krökkum og þau fylla mig bjartsýni á framtíðina“ sagði Willum Þór að loknum fundinum.
Líflegar umræður voru á fundinum þar sem m.a. var rætt um nauðsyn þess að hreyfa sig og fá nægan svefn, að vinna gegn einelti í öllum myndum, auka umburðarlyndi gagnvart fjölbreytileika mannlífsins, efla vímuefnafræðslu og margt fleira.
Til fundarins mættu fulltrúar fráfarandi ungmennaráðs áranna 2022-2024 og þau sem eru nýtekin við keflinu og munu sitja til ársins 2026. Í ráðinu sitja á hverjum tíma 12 fulltrúar á aldrinum 12-18 ára, af öllu landinu. Meginmarkmið ungmennaráðsins er að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði meðal jafningja sem og samfélagsins í heild sinni. Ungmennaráðinu er ætlað að vera lifandi vettvangur þar sem heimsmarkmiðin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna eru höfð að leiðarljósi og rædd með gagnrýnum og lausnamiðuðum hætti.
Willum Þór segir ungmennaráðið mjög mikilvægt til að hvetja fólk á þessum aldri til virkrar þátttöku í samfélaginu, auka skilning á líðan þeirra og þörfum og koma hugmyndum þeirra og skoðunum í farveg. Á fundinum sagði ráðherra gestum sínum frá ýmsum mikilvægum verkefnum sem unnið er að í heilbrigðisráðuneytinu og fjallaði m.a. um geðheilbrigðisstefnuna sem samþykkt var á Alþingi.