Ráðherra undirritar nýjan samning um stuðning við skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna
Árlegt framlag Íslands til skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna (OHCHR) verður meira en tvöfaldað með nýjum samningi sem Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra undirritaði á fjarfundi með Volker Türk mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna í dag.
Ísland hefur styrkt skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2021 og hafa árleg kjarnaframlög síðustu tvö ár numið 30 m.kr. Nýi samningurinn, sem undirritaður var í dag, felur í sér umtalsverða aukningu á stuðningi Íslands en þar er gert ráð fyrir 80 m.kr. árlegu kjarnaframlagi, auk 15 m.kr. árlegs framlags til þriggja sjóða stofnunarinnar sem vinna að réttindum hinsegin fólks (UN Free & Equal) og styðja við þróunarríki. Samningurinn er til fimm ára (2024-2028) sem er til marks um staðfastan stuðning Íslands við starfsemi Sameinuðu þjóðanna fyrir mannréttindum í heiminum.
„Skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna er leiðandi stofnun um verndun mannréttinda á heimsvísu og hana er mikilvægt að styðja. Það var því einkar ánægjulegt að undirrita endurnýjaðan samning við stofnunina í dag enda eiga mannréttindi víða undir högg að sækja nú um stundir,“ sagði Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra. Bjarni sagði samninginn einnig vera hluti af góðu samstarfi við skrifstofu mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna á vettvangi mannréttindaráðsins í Genf en Ísland er í framboði til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025 til 2027.
Á fundinum ræddu Bjarni og Türk ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og í Úkraínu og bága stöðu mannréttinda í Afganistan og Íran. Utanríkisráðherra lagði áherslu á að tryggja þyrfti virðingu fyrir mannréttindum á alþjóðavísu og alþjóðlegum mannúðarlögum. Þar að auki var þátttaka Íslands á vettvangi mannréttindaráðsins rædd og fagnaði Türk framboði Íslands til setu í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2025-2027.
Skrifstofa mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna er leiðandi stofnun um verndun mannréttinda í heiminum. Verkefni stofnunarinnar er að varpa ljósi á og þróa viðbrögð við mannréttindaáskorunum, annast rannsóknir og tæknilega ráðgjöf, veita upplýsingar og bera uppi málsvörn á sviðinu. Stofnunin leggur áherslu á hlutlæga umræðu um mannréttindi, aðstoðar stjórnvöld að uppfylla skyldur sínar og styður einstaklinga sem krefjast réttar síns. Starfsemin byggir á Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og öðrum alþjóðlegum lykilsamningum og yfirlýsingum.