Dómsmálaráðherra framlengir beitingu 44. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016
Staðan í Úkraínu hefur ekki batnað frá 4. mars 2022, þegar upphaflega var tekin ákvörðun um að virkja 44. gr. Átök hafa nú geisað í landinu í um tvö ár með tilheyrandi eyðileggingu og skemmdum á borgum, bæjum og innviðum landsins. Þá er óvissan um framhaldið gríðarleg.
Árið 2023 sóttu 1.618 einstaklingar um tímabundna vernd á grundvelli 44. gr. laga um útlendinga hér á landi. Þar af hefur Útlendingastofnun þegar veitt um 1.560 umsækjendum slíka vernd, einhverjar umsóknir eru enn í vinnslu og lítill hluti umsókna hefur hlotið aðrar lyktir, svo sem vegna þess að þær hafa verið dregnar til baka af hálfu umsækjanda.
Samráð við Flóttamannastofnun SÞ
Líkt og að framan greinir ber dómsmálaráðherra, áður en ákvörðun er tekin um framlengingu á beitingu 44. gr., að viðhafa samráð, innanlands sem utan, þar á meðal við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Stjórnvöld hér á landi eru í virku samtali við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og fylgjast með upplýsingum sem stofnunin gefur út, fréttatilkynningum, skýrslum o.fl.Síðastliðið ár hafa stjórnvöld á Íslandi, þ. á m. sérfræðingar í dómsmálaráðuneytinu, átt í miklu og góðu samstarfi við önnur Evrópuríki um beitingu tímabundinnar verndar í álfunni vegna fjöldaflótta frá Úkraínu. Tilskipun 2001/55/EB hefur verið framlengd um ár og gildir þá hjá öllum aðildarríkjum ESB til 4. mars 2025. Þá liggur fyrir að hin þrjú samstarfslönd Schengen, Noregur, Sviss og Liechtenstein, hafa þegar tekið ákvörðun um að framlengja gildistíma sinna laga og/eða reglna um tímabundna vernd.
Framkvæmd
Hvað varðar gildissvið 44. gr. og réttindi sem hljótast af útgáfu slíks dvalarleyfis er vísað til ákvörðunar ráðherra frá 3. mars 2022 og leiðbeininga ráðuneytisins frá 11. mars 2022 og 29. júní 2023, sem birtar hafa verið í Stjórnartíðindum.Þeir einstaklingar sem falla undir skilgreinda hópa samkvæmt ákvörðun ráðherra og leiðbeiningum ráðuneytisins geta þar með áfram komið hingað til lands og óskað eftir sameiginlegri vernd á grundvelli hópmats. Þar er fyrst og fremst um að ræða úkraínska borgara sem búsettir voru í Úkraínu 24. febrúar 2022 og fjölskyldur þeirra.