Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samningur við Heimilisfrið endurnýjaður

Andrés Proppé Ragnarsson, sálfræðingur hjá Heimilisfriði, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra. - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur endurnýjað samning við Heimilisfrið, meðferðar- og þekkingarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum. Heimilisfriður er sérhæft meðferðarúrræði fyrir þau sem beita eða hafa beitt ofbeldi í nánum samböndum. Lögð er áhersla á að viðkomandi taki ábyrgð á eigin ofbeldishegðun og læri að þróa leiðir til að takast uppbyggilega á við það sem kemur upp í samskiptum við maka.

Þjónustan hefur verið veitt um árabil en Heimilisfriður byggir starfsemi sína á sambærilegu úrræði á Norðurlöndunum, Alternativ til Vold (ATV) í Noregi, og starfar náið með þeim aðilum.

Heimilisfriður tekur á móti öllum sem telja sig þurfa aðstoð til þess að hætta að beita maka sinn ofbeldi og lögð er áhersla á að viðkomandi þiggi aðstoðina af fúsum og frjálsum vilja. Hjá Heimilisfriði er lögð rík áhersla á að ofbeldishegðun er aldrei ásættanleg en þar er öllum skjólstæðingum mætt með vinsemd og af virðingu.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur um margra ára skeið verið með samning við Heimilisfrið (áður Karlar til ábyrgðar) og kveður samningurinn bæði á um einstaklingsviðtöl og hópmeðferðir. Með samningnum er meðferðin niðurgreidd og þurfa skjólstæðingar einungis að greiða vægt gjald. Heildarfjárhæð samnings er 38,5 m.kr. á árinu 2024.

Heimilisfriður er staðsettur í Reykjavík en býður einnig upp á fjarviðtöl og þjónar þannig landinu öllu.

Mikil ánægja með meðferðina

Á síðasta ári framkvæmdi Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands úttekt á meðferðarúrræðinu, að beiðni félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Úttektin leiddi í ljós mikla ánægju með meðferð Heimilisfriðar, bæði á meðal skjólstæðinga og maka, og voru viðmælendur sammála um að meðferðin væri nauðsynleg fyrir þau sem beita ofbeldi í nánum samböndum. Dregið hafði úr ofbeldishegðun eftir að meðferð hófst, einkum líkamlegu ofbeldi.

Þá töldu flest að án niðurgreiðslu myndu þau ekki leita sér meðferðar. Í skýrslunni var einnig vakin athygli á ýmsum þáttum m.a. því að huga þyrfti betur að stuðningi við börn sem verða vitni af ofbeldi á heimilum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta