Utanríkisráðherra ræddi málefni dvalarleyfishafa á Gaza við utanríkisráðherra Ísrael
Málefni dvalarleyfishafa á Gaza voru til umræðu á símafundi sem Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra átti með Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, síðdegis í dag. Þar óskaði utanríkisráðherra liðsinnis um afgreiðslu á lista yfir dvalarleyfishafa á Gaza, en erindinu var vel tekið af hálfu ísraelska ráðherrans.
Undanfarið hefur sendinefnd utanríkisráðuneytisins verið að störfum í Egyptalandi til að greiða fyrir för einstaklinga með dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar frá Gaza. Sendinefndin hefur átt í góðu samstarfi við fulltrúa egypskra, ísraelskra og norrænna stjórnvalda á svæðinu. Þá hefur íslenska sendinefndin átt í reglulegum samskiptum við fulltrúa hóps Íslendinga sem er á eigin vegum í Egyptalandi.
Allt til reiðu fyrir móttöku dvalarleyfishafa
Íslensk stjórnvöld sendu stjórnvöldum á svæðinu lista yfir dvalarleyfishafa í fyrri hluta febrúarmánaðar. Í samskiptum við ísraelsk stjórnvöld hefur komið fram að listinn sé einstakur fyrir þær sakir að þar sé engan íslenskan ríkisborgara að finna og engan með tvöfalt ríkisfang, heldur eingöngu dvalarleyfishafa. Listinn þarfnist því sérstakrar skoðunar af þeirra hálfu, og hefur því enn ekki verið afgreiddur.
Allt er til reiðu til að taka á móti dvalarleyfishöfum við landamæri Egyptalands og Gaza, um leið og samþykki fæst fyrir ferðum þeirra yfir landamærin.
Fyrir liggur að íslensk stjórnvöld munu eingöngu vinna eftir löglegum diplómatískum leiðum og fylgja þeim ferlum sem ísraelsk og egypsk stjórnvöld gera kröfu um. Ekki er því unnt á þessum tímapunkti að fullyrða frekar um tímalínu málsins, en áfram verða veittar upplýsingar um framvinduna hér á vef ráðuneytisins.
Í samtali sínu ræddu ráðherrarnir einnig um yfirstandandi átök. Ráðherra ítrekaði afstöðu Íslands um nauðsyn vopnahlés af mannúðarástæðum, virðingu við alþjóðalög, lausn gísla og óheft aðgengi mannúðaraðstoðar til óbreyttra borgara.