Hoppa yfir valmynd
29. febrúar 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fullur salur á samráðsfundi um málefni innflytjenda

Hópavinna á fundinum í gær - sjá einnig fleiri myndir neðst í fréttinni. - mynd

Hátt í tvö hundruð manns tóku þátt í opnum samráðsfundi um málefni innflytjenda sem félags- og vinnumarkaðsráðuneytið stóð fyrir á Grand hótel í gær. Mikill meirihluti þátttakenda voru innflytjendur. Fundurinn var hluti af hringferð um landið vegna stefnumótunar í málaflokknum en markmið stefnunnar er að fólk sem sest að hér á landi hafi aukin tækifæri til inngildingar (e. inclusion) og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði. 

„Við höfum lagt áherslu á að samráð við íbúa, ekki síst innflytjendur, sé afar mikilvægt við stefnumótunina. Við höfum því hvatt innflytjendur sérstaklega til að mæta á samráðsfundina og það var magnað að sjá viðtökurnar í gær og þann fjölbreytta hóp af fólki sem streymdi inn í fundarsalinn: Fólk héðan og þaðan og á öllum aldri, með ólíka reynslu og bakgrunn,“ segir Áshildur Linnet, einn af skipuleggjendum samráðsfundanna og formaður stýrihóps um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks.

Síðasti samráðsfundurinn fer fram á Egilsstöðum þann 11. mars nk. en áður hefur verið fundað á Akureyri, Ísafirði, Selfossi, Borgarnesi og Reykjanesbæ.

„Hópavinnan í gær fór fram á íslensku, ensku, pólsku og spænsku og það var gaman að heyra íslensku talaða með margvíslegum hreim um allan sal. Fram til þessa hafa íslensk stjórnvöld ekki haft sértæka stefnu hvað varðar inngildingu fólks í samfélagið og með stefnumótuninni erum við sem samfélag því að taka stór og mikilvæg skref,“ segir Áshildur enn fremur.

„Af hverju er nafnið þitt Margarita?“

Dr. Paola Cardenas, formaður innflytjendaráðs, tók til máls í byrjun fundarins. Í máli hennar kom fram að faðir hennar er frá Kólumbíu og móðir hennar frá Síle. Sjálf er hún fædd í Venesúela. Paola er með doktorspróf í sálfræði og starfar á Íslandi sem barnasálfræðingur og við kennslu á háskólastigi.

„Ég kom fyrst til Íslands sem ung kona fyrir um það bil 25 árum síðan, þegar Ísland var að mestu leyti einsleitt samfélag. Við vorum mjög fáir innflytjendur hér,“ sagði Paola og ræddi um lúmska fordóma sem voru ríkjandi á þeim tíma.

„Maður heyrði oft: „Hvenær ferðu aftur heim til þín? Ertu alltaf að hanga með þínu fólki? Af hverju er nafnið þitt Margarita, er það eins og pizzan eða kokteillinn?“ Ég hét þá Paola Margarita en breytti svo nafninu mínu í Paola til að forðast þessi komment. Á þeim tíma var lítil þekking til um hvernig eigi að styðja við aðlögun innflytjenda og um mikilvægi þess að skapa fjölmenningarlegt samfélag á Íslandi,“ sagði Paola. Hún beindi orðum sínum einnig til innflytjenda í salnum.

„Við getum haft áhrif á að skapa inngildandi samfélag, þar sem allir þjóðfélagsþegnar sjá hag í því að búa saman og líta á mannlegan fjölbreytileika sem styrk en ekki ógn við samfélagið (…) Við getum líka haft áhrif á að breyta viðhorfum allra til innflytjenda á Íslandi og sýna fram á að við erum virkir þátttakendur í samfélaginu og framlag okkar er mikilvægt.“

Fyrsta grænbókin á þremur tungumálum

Í nóvember síðastliðnum var birt stöðumat í málaflokknum, svokölluð grænbók. Þetta var fyrsta grænbókin í málaflokknum og jafnframt fyrsta grænbókin sem birt er á þremur tungumálum: Íslensku, ensku og pólsku. Í grænbókinni er mat lagt á stöðuna í málefnum innflytjenda og flóttafólks hér á landi auk þess sem áskoranir og tækifæri eru greind til framtíðar.

Í framhaldinu verður unnin hvítbók sem mun fela í sér fyrstu drög að stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks og eru samráðsfundirnir hluti af þeirri vinnu. Í kjölfarið verður unnin tillaga til þingsályktunar um stefnu í málefnum innflytjenda og flóttafólks.

Myndir af fundinum í gær:

  

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta