Frumvarp um opinber skjalasöfn í samráðsgátt
Menningar- og viðskiptaráðherra hefur birt drög að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um opinber skjalasöfn í samráðsgátt stjórnvalda.
Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði laganna um gjaldtöku opinberra skjalasafna verði einfölduð og samræmd auk þess sem skýrar verði kveðið á um þær aðstæður þegar starfsemi héraðsskjalasafna er hætt. Að auki er lagt til að í lögum komi fram sú meginregla að skjölum skuli skilað til opinberra skjalasafna á því formi sem þau verða til á.
Þar sem nær öll skjöl í nútímastjórnsýslu verða til á rafrænu formi er með þessu í fyrsta sinn kveðið á um að rafræn skil séu meginregla. Hér er því um að ræða grænt og jákvætt skref til framtíðar sem mun einnig leiða af sér sparnað.
Málið er í samráðsgátt til 7. mars og stendur til að leggja frumvarpið fram á Alþingi þegar unnið hefur verið úr þeim umsögnum sem berast.