Réttindi fatlaðs fólks eru ekki sérréttindi
Fatlað fólk er ekki einsleitur hópur og réttindi þess eru ekki sérréttindi. Þetta er meðal þess sem þátttakendur á samráðsþingi um landsáætlun í málefnum fatlaðs fólks vilja að komið verði á framfæri við almenning. Samráðsþingið er árlegt og meginefni þess í þetta sinn var vitundarvakning.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, mælti fyrir landsáætluninni á Alþingi í janúar en undirbúningur aðgerða er þegar hafinn.
Samráðsþinginu er ætlað að tryggja eftirfylgni þeirra aðgerða sem eru í landsáætluninni og sat fjölbreyttur hópur fólks þingið í gær, meðal annars fatlað fólk og fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðs fólks, faghópa og stjórnvalda.
Fötlun er margbreytileg
Megináhersla landsáætlunarinnar í ár er á vitundarvakningu. Á samráðsþinginu var rætt hvaða skilaboðum væri mikilvægt að koma á framfæri, bæði gagnvart almenningi, fagfólki og fötluðu fólki.
Meðal niðurstaðna var að upplýsa þyrfti fagfólk um að fatlað fólk væri sérfræðingar í eigin lífi og virða yrði sjálfræði fatlaðs fólk og rétt þess til að ráða sínu lífi. Þá töldu þátttakendur mikilvægt að fatlað fólk þekkti réttindi sín, auk þess sem vitundarvakningu þyrfti hjá þeim hópi um margbreytileika fötlunar.
Niðurstöðurnar verða nú sendar til frekari vinnslu hjá verkefnastjórn landsáætlunar.
„Við fengum svo sannarlega það sem við vildum fá út úr deginum: Sterk og skýr skilaboð til að taka áfram í vinnuna við vitundarvakninguna sem nú er fram undan,“ segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður verkefnastjórnarinnar.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, flytur ávarp við upphaf þingsins.
Erla María Árnadóttir hjá Hvíta húsinu ræðir um átaksverkefni og skilaboð í þeim.
Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir, formaður verkefnastjórnar um landsáætlun, og Anna Klara Georgsdóttir, teymisstjóri í félags- og vinnumarkaðsráðueytinu og verkefnastjóri landsáætlunar.
Málin rædd fram og til baka.