Mælti fyrir frumvarpi um aukna tryggingavernd sjúklinga
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi að nýjum heildarlögum um sjúklingatryggingu. Markmiðið er að tryggja sjúklingum aukna vernd og aukinn rétt til bóta verði þeir fyrir tjóni af völdum heilbrigðisþjónustu. Sjúklingatryggingakerfið verður samræmt og einfaldað, málsmeðferð bætt og jafnræði tjónþola aukið. Frumvarpið felur í sér margvísleg nýmæli og réttarbætur. Meðal annars er lagt til að hámarksfjárhæð bóta vegna tjóns verði hækkuð um 50%.
Lög um sjúklingatryggingu tóku gildi 1. janúar 2001. Á síðustu tveimur löggjafarþingum var bætt bráðabirgðaákvæðum við lögin til að útvíkka gildissvið þeirra þannig þau taki til tiltekinna bólusetninga auk þess sem bætt var inn ákvæði er varðar klínískar lyfjarannsóknir. Vinna við þessar breytingar leiddi í ljós þörf á nýjum heildarlögum. Frumvarp að nýjum lögum var unnið af starfshópi skipuðum fulltrúum heilbrigðisráðuneytis, embættis landlæknis og Sjúkratrygginga Íslands. Í þeirri vinnu var jafnframt haft samráð við vátryggingafélög, embætti ríkislögmanns og Lyfjastofnun. Drög að frumvarpinu voru birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og gerðar á því nokkrar breytingar á grundvelli umsagna sem bárust.
Margvíslegar réttarbætur
Umfangsmesta breytingin samkvæmt frumvarpinu felst í því að afnema þá aðgreiningu sem gerð hefur verið eftir því hvar tjónsatvik á sér stað. Samkvæmt gildandi lögum fjalla Sjúkratryggingar Íslands einungis um atvik sem verða hjá opinberum heilbrigðisstofnunum. Að öðrum kosti heyra þau undir vátryggingarfélag hlutaðeigandi þjónustuveitanda. Málsmeðferð allra mála verður færð á hendur einnar stjórnsýslustofnunar, þ.e. Sjúkratrygginga Íslands, sem stuðlar að samræmdri málsmeðferð og jafnræði tjónþola.
Með frumvarpinu er einnig gerð sú breyting að foreldrar eða forsjárforeldrar öðlast rétt til bóta vegna andláts fósturs á meðgöngu ef ástæðuna má rekja til atviks sem fellur undir lög um sjúklingatryggingu. Sami réttur er tryggður vegna andlát barns undir 18 ára aldri.
Frumvarpið kveður að auki á um að bætur skuli greiddar þeim sem gangast undir bólusetningu á Íslandi með bóluefni sem hérlend heilbrigðisyfirvöld leggja til ef tjón hlýst af því. Bráðabirgðaákvæði var fært inn í gildandi lög um rétt til bóta vegna bólusetningar gegn COVID-19 en með frumvarpinu er lagt til almennt ákvæði sem tryggir þennan rétt vegna tjóns af völdum bólusetningar.
„Ég tel ekki of sagt að þetta frumvarp marki tímamót. Markmiðið er að einfalda sjúklingum ferlið við að sækja bætur vegna tjóns af völdum heilbrigðisþjónustu, auka tryggingavernd þeirra og tryggja öllum samræmda og réttláta málsmeðferð á grundvelli stjórnsýslulaga“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.