Undirbúningur vegna komu fjölmenns hóps frá Gaza
Undirbúningur fyrir komu fjölmenns hóps frá Gaza hefur staðið yfir síðustu misseri. Vinnumálastofnun vinnur að móttöku fólksins hér á landi í samráði við þau sveitarfélög þar sem fjölskylda þeirra hér á landi býr. Flestir dvalarleyfishafar frá Gaza ganga inn í svokallaða samræmda móttöku flóttafólks í því sveitarfélagi þar sem fjölskyldumeðlimir þeirra hér á landi eiga heima.
Utanríkisráðuneytið greindi í morgun frá því að 72 einstaklingar frá Gaza, með dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli fjölskyldusameiningar, komu til Kaíró seint í gærkvöldi fyrir tilstuðlan íslenskra stjórnvalda. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið er með samning við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina, IOM, og hefur Vinnumálastofnun undanfarnar vikur og mánuði átt í samskiptum við IOM vegna fólksins. Vinnumálastofnun hefur óskað eftir því að IOM muni flytja fólkið til Íslands og er nú unnið að skipulagningu þess verkefnis. IOM veitir fólkinu einnig aðstoð í Kaíró og felst aðstoðin meðal annars í heilsufarsskoðun og gistingu fram að ferðalaginu til Íslands.
„Margt fólk hefur lagt á sig ómælda vinnu við að koma dvalarleysishöfum í öruggt skjól á Íslandi og á miklar þakkir skildar. Ég fagna því innilega að fólkið sé nú á leið til landsins og sameinist hér fjölskyldum sínum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Ég fundaði í gær með fulltrúum IOM þar sem við ræddum aðkomu stofnunarinnar að þessu máli og samstarf íslenskra stjórnvalda við hana. Ég kom á framfæri þökkum til þeirra fyrir frábært samstarf við erfiðar aðstæður.“
Sálrænn stuðningur og læknisskoðun
Vinnumálastofnun hefur verið í sambandi við Rauða krossinn á Íslandi vegna sálræns stuðning við fólkið eftir að það kemur hingað til lands og er Rauði krossinn reiðubúinn að koma að því verkefni. Þá hefur Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu verið gert viðvart um komu stórs hóps til landsins frá Gaza og tengiliðir hjá Barnaspítala Hringsins meðal annars verið upplýstir.
Hjá Vinnumálastofnun er einnig unnið að skipulagningu á móttöku hópsins á Keflavíkurflugvelli. Fjölskyldumeðlimir á Íslandi hafa sömuleiðis verið í miklu sambandi við arabískumælandi starfsmann Vinnumálastofnunar.
„Vinnumálastofnun hefur á undanförnum vikum undirbúið móttöku fólksins í samstarfi við ráðuneytið og sveitarfélögin. Við munum áfram leggja okkur öll fram við að taka vel á móti fólkinu sem er að koma úr skelfilegum aðstæðum,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson.