Kröftug ritmenning og fjölbreytt útgáfustarfsemi: drög bókmenntastefnu í opið samráð
Drög nýrrar bókmenntastefnu eru nú til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda en með henni er mörkuð framtíðarsýn fyrir málefnið til ársins 2030 og kynntar aðgerðir sem miða að því að efla íslenskar bókmenntir og ritmenningu.
„Íslenskar bókmenntir og ritmenning geyma sögu okkar og sjálfsskilning – og það er brýnt að við tryggjum að saga okkar verði áfram skrifuð á íslensku. Það er vilji okkar að efla íslenskar bókmenntir og ritmenningu, með því styrkjum við stöðu íslenskrar tungu og lýðræðis í landinu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.
Framtíðarsýn sem kynnt er í drögum nýrrar bókmenntastefnu felur m.a. í sér að hérlendis þrífist fjölbreytt útgáfustarfsemi og metnaðarfull ritmenning, starfsumhverfi rit- og myndhöfunda sé hvetjandi og fólk á öllum aldri hafi greiðan aðgang að margvíslegu lesefni.
Til stuðnings framtíðarsýninni eru sett fram þrjú meginmarkmið sem aðgerðaáætlun stefnunnar tekur mið af:
1. Að stuðlað sé að sköpun á íslensku, útgáfu á íslensku og aðgengi að fjölbreyttu efni á íslensku og tryggja með því stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu.
2. Að stuðlað verði að auknum og bættum lestri sem víðast í samfélaginu, með áherslu á unga lesendur.
3. Að tryggt sé að stuðningur við sköpun og útgáfustarfsemi sé skilvirkur og taki mið af örri tækniþróun og samfélagsbreytingum.
Bókmenntastefnan og aðgerðaáætlunin eru unnin í nánu samráði við hagsmunaaðila eins og rekið er í greinargerð með þingsályktunartillögunni. Stefnan hefur að geyma framtíðarsýn fyrir málaflokkinn, meginmarkmið sem stefnan hverfist um og aðgerðaáætlun sem tekur á fjölbreyttum þáttum bókmenntalandslagsins. Fjallað er um lestur og sköpun, regluverk, tölfræði, sjóði, þýðingar, miðlun og fræðslu. Vikið er að ýmsum áskorunum sem bókmenntirnar standa frammi fyrir eins og gervigreind og orðabókagerð.
Kynntar eru til sögunnar nýjungar sem mikilvægt er að fá viðbrögð við, frá hagsmunaaðilum og áhugafólki um bókmenntir. Þingsályktunartillagan verður opin til samráðs fram til 18. mars. Ráðuneytið hvetur hagaðila og annað áhugafólk til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri innan tilskilins frests.
Í febrúar var haldin kröftug og vel sótt ráðstefna um stöðu bókarinnar. Sjá nánar hér.