Fríverslunarsamningur við Indland undirritaður
Nýr fríverslunarsamningur milli Indlands og EFTA-ríkjanna, það er Íslands, Liechtenstein, Noregs og Sviss, var undirritaður í Nýju Delí dag. Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands.
Í samningnum er kveðið á um tollkjör, skuldbindingar í þjónustuviðskiptum, vernd hugverka, fjárfestingar, viðskipti og sjálfbæra þróun sem og úrlausn deilumála ef upp koma.
„Samningurinn hefur mikla þýðingu fyrir viðskipta- og efnahagssamband Íslands við Asíu og skapar traustan grunn fyrir framtíðarviðskipti við Indland,“ segir Bjarni. „Þá styrkir hann einnig pólitísk samskipti Íslands og EFTA-ríkjanna við fjölmennasta lýðræðisríki heims og fimmta stærsta hagkerfið á heimsvísu sem er í stöðugum vexti.“
Tollfrelsi eða umtalsverð lækkun fyrir íslenskar sjávarafurðir
Samningurinn bætir markaðskjör á öllum helstu útflutningsvörum Íslands til Indlands. Frá gildistöku hans munu sjávarafurðir og helstu iðnaðarvörur sem Ísland flytur út ýmist njóta fulls tollfrelsis eða umtalsverðrar tollalækkunar. Þrátt fyrir miklar takmarkanir á innflutningi landbúnaðarafurða til Indlands tryggir samningurinn Íslandi tollfríðindi fyrir lambakjöt, vörur úr sjávarþara, drykkjarvatn og óáfenga drykki svo eitthvað sé nefnt.
Skuldbindingar sem Ísland tekur á sig varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur eru sambærilegar við fyrri fríverslunarsamninga Íslands á vettvangi EFTA. Þar er að stærstum hluta um að ræða landbúnaðarafurðir sem ekki eru framleiddar á Íslandi, svo sem ýmsar tegundir grænmetis, kornmetis, matarolíu, bauna, sælgætis og drykkjarvara.
Í samningnum er kveðið á um að EFTA-ríkin muni sameiginlega stuðla að auknum fjárfestingum fyrirtækja frá EFTA-ríkjunum með það fyrir augum að styðja við efnahagsþróun, nýsköpun og græn umskipti á Indlandi. Á sama tíma mun Indland stuðla að hagstæðum skilyrðum til fjárfestinga, meðal annars með sérstöku þjónustuveri fyrir fjárfesta frá EFTA-ríkjunum.
Þá nær samningurinn einnig til þjónustuviðskipta yfir landamæri, réttindi til stofnsetningar, innlendar reglur og tímabundinn aðgang fyrir þjónustuveitendur og tryggir íslenskum fyrirtækjum aðgang og fyrirsjáanleika á Indlandsmarkaði. Ísland fær þar að auki skuldbindingar á sviðum orkutengdrar þjónustu en indversk stjórnvöld hafa áform um að auka nýtingu endurnýjanlegrar orku. Á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á nánari samvinnu Íslands og Indlands þegar kemur að endurnýjanlegri orku.