Þing kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sett í dag
Árlegt þing kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna var sett í New York í dag. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sækir þingið fyrir hönd Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra. Hann flytur ávarp Íslands á þinginu.
Guðmundur Ingi var viðstaddur setningu þingsins í morgun og tók jafnframt þátt í norrænum hliðarviðburði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Yfirskrift viðburðarins var „A Feminist Future for Financial Freedom“ og í pallborði með honum voru jafnréttisráðherrar hinna Norðurlandanna.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson:
„Þó svo að norrænn vinnumarkaður sé fremstur á meðal jafningja þegar kemur að jafnrétti kynjanna þá eru enn þrálátar áskoranir sem minna okkur á að við eigum enn verk að vinna. Þrálátar áskoranir eins og launamunur kynjanna, kynferðislegt ofbeldi, kynskiptur vinnumarkaður og ójöfn þátttaka kynjanna í þriðju vaktinni.
Í umræðunum lagði ég áherslu á þær áskoranir sem við þurfum að takast á við til að ná enn betri árangri. Ég ræddi sérstaklega um launamun kynjanna og kynskiptan vinnumarkað og mikilvægi þess að ganga lengra, ekki síst að vinna að jafnvirði starfa.“
Norræn dagskrá í gær
Í gær tók Guðmundur Ingi þátt í norrænni dagskrá og fundaði meðal annars með norrænum jafnréttisráðherrum og Simu Bahous, framkvæmdastýru UN Women.
68. þing kvennanefndarinnar stendur í tvær vikur, frá 11.-22. mars 2024. Fyrri vikan inniheldur ráðherradagskrá en í þeirri síðari fara fram fundir ætlaðir sérfræðingum, auk þess sem samningaviðræðum um niðurstöður fundarins er haldið áfram.
Frá viðburðinum „A Feminist Future for Financial Freedom“ í dag.
Guðmundur Ingi ræðir jafnréttismál á Norðurlöndunum.
Með norrænum jafnréttisráðherrum í gær og framkvæmdastýru UN Women.
Myndir: Norræna ráðherranefndin.