Skýrsla um stuðningskerfi íslensks landbúnaðar, markmið og leiðir
Stuðningskerfi íslensks landbúnaðar auk markmiða og leiða er umfjöllunarefni nýútkominnar skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands (Lbhí). Skýrslan er unnin að beiðni matvælaráðuneytisins og er hluti samstarfssamnings þar sem ráðuneytið felur Lbhí að vinna að rannsóknum, þróun og nýsköpun á sviði landbúnaðar og matvælaframleiðslu.
Í skýrslunni er horft til þeirra markmiða sem sett hafa verið, bæði í lögum og í nýlega samþykktri landbúnaðarstefnu, og gerð heildargreining á landbúnaðarframleiðslu á Íslandi og íslenska stuðningskerfinu. Einnig er þar að finna greinargóða lýsingu á stuðningskerfum landbúnaðar í Austurríki, Bretlandi (Englandi og Skotlandi), Finnlandi, Kanada (Nýfundnalandi), Noregi og Svíþjóð en fyrrgreind lönd eru að mati skýrsluhöfunda samanburðarhæf við Ísland hvað varðar landfræði, loftslag og samsetningu landbúnaðarframleiðslu.
Seinni endurskoðun búvörusamninga lauk í janúar 2024. Samhljómur var á milli samningsaðila um að þörf væri á að hefja viðræður sem fyrst um starfsumhverfi landbúnaðar til framtíðar, en margvíslegar breytingar hafa átt sér stað í rekstrarumhverfi landbúnaðarins á síðustu árum.
Orsakir breytinganna eru fjölþættar, þó einkum afleiðingar heimsfaraldurs kórónaveirunnar og innrásar Rússa í Úkraínu sem íslensk stjórnvöld hafa brugðist við með sértækum stuðningi við landbúnað.
Skýrsla Landbúnaðarháskólans er mikilvægt innlegg í þá umræðu sem framundan er. Horft er til meginmarkmiðs landbúnaðarstefnu Íslands til árins 2040, að efla og styðja við íslenskan landbúnað og styrkja stoðir til framtíðar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.
Höfundar skýrslunnar eru þau Torfi Jóhannesson, Jóhanna Gísladóttir og Þóroddur Sveinsson.