Styrkir vegna barna á flótta á leikskóla- og framhaldsskólaaldri
Mennta- og barnamálaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum um styrki til verkefna sem styðja við börn sem fengið hafa alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum á aldrinum 0-6 ára og 16-18 ára. Úthlutunin er hluti af reynsluverkefni stjórnvalda til tveggja ára um að styrkja sveitarfélög við að þróa verkefni og efla stuðning við börn á flótta.
Markmið styrkjanna er að vera hreyfiafl framfara í stuðningi við börn á flótta og eru sveitarfélög hvött til nýsköpunar í málaflokknum. Horft er sérstaklega til verkefna og úrræða fyrir ungabörn, börn á leikskóla- og á framhaldsskólaaldri.
Sveitarfélög geta leitað samstarfs við önnur sveitarfélög, stofnanir og félagasamtök eða annarra aðila sem vinna að málefnum barna á þessum aldri.
Verkefni skal vera
- með áherslu á félags- og námslegar þarfir barna með flóttabakgrunn,
- með skýra fjárhagsáætlun og traustan fjárhagsgrundvöll,
- með vel skilgreinda verk- og tímaáætlun,
- með skýra áætlun um miðlun á afurðum og reynslu af verkefninu og að allar afurðir verkefnisins verði gerðar aðgengilegar á landsvísu án endurgjalds.
Áherslur í úthlutun eru á
- málefni barna og ungmenna sem nýlega hafa fengið alþjóðlega vernd eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum. Horft er sérstaklega til verkefna til stuðnings börnum sem ekki eru á skólaskyldualdri, þ.e. yngri en 6 ára og eldri en 15 ára;
- fjölbreytt verkefni s.s. innan leikskóla, framhaldsskóla, félagsmiðstöðva, barnaverndar, íþrótta- og tómstundastarfs;
- samstarf milli sviða og stofnana innan sveitarfélags, milli sveitarfélaga og/eða samstarf sveitarfélags/stofnana (s.s. framhaldsskóla, heilsugæslu o.s.frv.) og/eða félagasamtaka.
Hvatt er til að umsóknir
- byggi á vel skilgreindu samstarfi sveitarfélaga/landsvæða og annarra aðila, en það er þó ekki skylda,
- séu með yfirliti um áætlað framlag umsóknaraðila, hvort sem er í vinnu eða útgjöldum.
Allir aðilar á sveitarstjórnarstigi geta sótt um styrki. Aðrir aðilar þurfa að skila inn staðfestingu um samstarf sveitarfélags með umsókn.
Umsóknir eru metnar út frá því að
- verkefnið falli að áherslum auglýsingar,
- verkefnið feli í sér þróunarstarf með notagildi fyrir aðra,
- líkur séu á að umsækjanda takist að ná þeim markmiðum sem verkefnið miðar að innan tímaramma,
- fjárhagsáætlun sé skýr og gagnsæ.
Umsóknarfrestur er til og með 17. apríl 2024. Úthlutað verður í lok apríl 2024.
- Sækja um styrk (undir Eyðublöð - Mennta- og barnamálaráðuneytið)