Ný námsleið á meistarastigi um ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun
Ráðgjöf í málefnum fólks með heilabilun er ný námsleið við Háskólann á Akureyri sem hefst næsta haust. Heilbrigðisráðuneytið veitti skólanum 7 milljóna króna styrk til að koma náminu á fót til að fylgja eftir áherslum í aðgerðaáætlun ráðuneytisins í þjónustu við fólk með heilabilun. Námsleiðin verður kynnt á opnun kynningarfundi háskólans mánudaginn 18. mars.
„Ég fagna því innilega að þessi námsleið sé orðin að veruleika. Fólk með heilabilun er viðkvæmur hópur með margvíslegar og flóknar þarfir. Það krefst þverfaglegrar þekkingar að veita þessum hópi góða þjónustu, sinna stuðningi við aðstandendur og fræða starfsfólk sem kemur að málefnum einstaklinga með heilabilun. Þessi námsleið sem er nýjung hér á landi markar því tímamót“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Námið er samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri (HA) og Háskóla Íslands. Það felur í sér 60 eininga (ECTS) viðbótardiplómanám á meistarastigi fyrir nemendur með grunnnám á Bakkalárstigi í heilbrigðis- og félagsgreinum og er námsleið innan hjúkrunarfræðideildar.
Eins og fram kemur á vef HA felst megininntak námsins í sérhæfingu á sviði heilabilunar með áherslu á persónumiðaða, heildræna og samþætta ráðgjöf og þjónustu við fólk með heilabilun og aðstandendur þeirra auk ráðgjafar og fræðslu til faghópa, almennings og stofnana. Námið er þverfræðilegt enda krefst ráðgjöf í heilabilun víðrar sýnar og samstarfs margra aðila.
Mikil þörf er á aukinni menntun og fagþekkingu í þessum málefnum í ljósi ört vaxandi hóps með heilabilun. Námið hefur því mikið samfélagslegt gildi og ljóst að þekking þeirra sem ljúka því mun koma að góðum notum víða innan heilbrigðis- og velferðarkerfisins.