Hoppa yfir valmynd
15. mars 2024 Heilbrigðisráðuneytið

102.000 einstaklingar nýtt sér þjónustu sérgreinalækna samkvæmt nýjum samningi

Frá undirritun samings um þjónustu sérgreinalækna 27. júní 2023 - myndStjórnarráðið

Um 102.000 einstaklingar hafa nýtt sér þjónustu sérgreinalækna á grundvelli þjónustusamnings þeirra og Sjúkratrygginga Íslands (SÍ) sem tók gildi 1. september síðastliðinn. Meðan samningslaust var við sérgreinalækna innheimtu þeir viðbótarkomugjöld af sjúklingum til að mæta kostnaði umfram gjaldskrá sjúkratrygginga. Með þjónustusamningnum 1. september féllu þessi gjöld niður og áætlar SÍ að samningurinn hafi sparað þeim sem nýtt hafa þjónustu sérgreinalækna frá gildistöku samningsins um 1,3 milljarða króna. 

Áhersla á aukið aðgengi og framþróun þjónustunnar

„Þegar ég tók við embætti heilbrigðisráðherra var það eitt af mínum stærstu forgangsmálum að ná samningum við sérgreinalækna. Það var algjörlega nauðsynlegt til að tryggja sjúklingum jafnan aðgang að þjónustu þeirra óháð efnahag. Það hefur tekist með þessum samningi og einnig áform um að þróa þjónustuna áfram með áherslu á aukið öryggi og gæði þjónustunnar. Þá leggur samningurinn einnig sérstaka áherslu á nýjungar í fjarheilbrigðisþjónustu, nýsköpun og stafræna þróun til að styðja við þjónustu á öllu landinu.“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.

Fjallað er um reynsluna af samningnum í nýju fréttabréfi Sjúkratrygginga Íslands á vef stofnunarinnar. Þar kemur einnig fram að inn í samninginn hafi verið byggður hvati sem miði að því að sérgreinalæknar starfi saman í starfsheildum, þ.e. á læknastofum, þar sem slíkt fyrirkomulag auki gæði þeirrar þjónustu sem sjúklingar fá. Þetta hafi gefið góða raun og starfi nú um 95% lækna sem aðild eiga að samningnum í slíkri starfsheild.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta