Lýðheilsustyrkir: Áhersla á að efla geðheilsu og félagsfærni
Áhersla er lögð á að styrkja aðgerðir sem miða að því að efla geðheilsu barna og fullorðinna og efla félagsfærni ásamt því að draga úr einmanaleika með styrkjum úr Lýðheilsusjóði sem úthlutað var við athöfn í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti í vikunni. Önnur áhersluatriði eru áfengis-, vímu- og tóbaksvarnir, næring, hreyfing og kynheilbrigði.
Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra tilkynnti um úthlutun styrkjanna, sem samtals nema rúmlega 92 milljónum króna og renna til 158 verkefna og rannsókna. Fjölbreytt verkefni um land allt sem snúa að öllum aldurshópum hljóta styrkina í ár. Við mat á umsóknum fyrir árið 2024 var einnig sérstaklega horft til verkefna sem styðja við minnihlutahópa, stuðla að jöfnuði til heilsu og tengjast nýsköpun á sviði forvarna og heilsueflingar.
„Það er alltaf ánægjuleg stund þegar kemur að úthlutun styrkja úr Lýðheilsusjóði. Aðgerðirnar eru eins fjölbreyttar og þær eru margar og er ætlað að stuðla að betri vellíðan og seiglu í samfélaginu. Framlög til sjóðsins voru aukin um 20 milljónir á þessu ári og ég óska styrkþegum innilega til hamingju“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Ráðherra úthlutaði styrkjunum að fengnum tillögum stjórnar Lýðheilsusjóðs sem mat umsóknir út frá því hvernig þær falla að hlutverki sjóðsins. Áður höfðu fagráð embættis landlæknis metið allar umsóknir sem bárust. Embætti landlæknis annast daglega umsýslu og reikningshald Lýðheilsusjóðs.
Hlutverk Lýðheilsusjóðs er skilgreint í lögum um landlækni og lýðheilsu og lýðheilsustefnu til ársins 2023.