Hoppa yfir valmynd
15. mars 2024 Matvælaráðuneytið

Stærstur hluti sæðingastyrkja nýtist til sæðinga með verndandi arfgerð gegn riðuveiki.

Um 86% sæðingastyrkja vegna sæðinga á vegum sauðfjársæðingastöðva árið 2023 renna til sæðinga með hrútum sem bera verndandi arfgerð gegn riðuveiki (ARR).

Sú arfgerð uppgötvaðist í fyrsta skipti í íslenska fjárstofninum í janúar árið 2022 í einni hjörð á Austurlandi en síðan hefur arfgerðin fundist á fleiri stöðum á landinu. ARR arfgerðin hefur verið notuð í löndum Evrópusambandsins við útrýmingu riðu með góðum árangri. Ljóst var frá upphafi að uppgötvunin myndi valda straumhvörfum í baráttunni við riðuna sem talið er að hafi fyrst borist í íslenskt sauðfé árið 1878 og hefur valdið miklum búsifjum.

Greiðslur sæðingastyrkjanna dreifast á milli 670 fjáreigenda en fjöldi sæðinga sem greitt er út á er 23.030. Fjáreigendur tóku þátt á landsvísu og var fjöldi sæðinga með verndandi arfgerð 17.271 en heildarfjöldi með mögulega verndandi arfgerð var 5.759.

Norðurland vestra er það landssvæði þar sem riðuveiki hefur hvað tíðast komið upp síðustu ár en um þriðjungur allra sæðinga árið 2023 með verndandi arfgerðir var gerður þar og á rúmlega 40% sauðfjárbúa á svæðinu.

Allir fjáreigendur sem nýttu sæðingarnar fá styrki, einnig tómstundabændur sem almennt fá ekki stuðningsgreiðslur, en talið er mikilvægt að dreifa ARR arfgerðunum sem víðast í íslenska sauðfjárstofninum til að koma í veg fyrir riðusmit. Styrkirnir eru hluti tillagna sérfræðingahóps sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráherra skipaði í maí árið 2023 og skilaði skýrslu með tillögum í nóvember sama ár. Unnið hefur verið samkvæmt tillögum hópsins til að hraða útbreiðslu verndandi og mögulega verndandi arfgerða.
Styrkirnir verða greiddir út í Afurð innan skamms.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta