Dómsmálaráðuneytið auglýsir eftir skrifstofustjóra fjármála og rekstrar
Undir skrifstofu fjármála og rekstrar heyra fjölbreytt málefni m.a. rekstur og fjármál ráðuneytisins og stofnana þess, mannauðsmál, alþjóðasamstarf, gæðamál, skjalavistun, upplýsingakerfi, öryggismál, eignaumsjón og Stafrænt DMR. Skrifstofan annast sértækar og almennar tölulegar greiningar vegna málefna ráðuneytisins og stofnana þess, ber ábyrgð á gerð og eftirfylgni fjármálaáætlunar og fjárlaga fyrir hönd ráðuneytisins m.a. gagnvart stofnunum þess og hefur aðkomu að stefnumótun þeirra málefnasviða og málaflokka, sem ráðuneytið ber ábyrgð á. Þá fylgir skrifstofan eftir skilum rekstrar- og starfsáætlana allra stofnana ráðuneytisins. Starfsfólk skrifstofunnar styður við innra starf ráðuneytisins, meðal annars við störf hópa og teyma sem starfa þvert á ráðuneytið.
Skrifstofustjóri er hluti af stjórnendateymi dómsmálaráðuneytisins og heyrir undir ráðuneytisstjóra í daglegum störfum.
Auglýsing um starfið er birt á Starfatorgi og þar er einnig hægt að sækja um.
Dómsmálaráðherra skipar í embættið, þegar nefnd sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 19. gr. laga nr. 115/2011, hefur lokið störfum. Skipað er í embættið til fimm ára í senn.
Hjá ráðuneytinu skiptist starfsemin í fimm skrifstofur, skrifstofu almanna- og réttaröryggis, skrifstofu réttinda einstaklinga, skrifstofu réttarfars og stjórnsýslu og skrifstofu löggjafarmála auk skrifstofu fjármála og rekstrar. Nánari upplýsingar um starfsemi ráðuneytisins er að finna á www.dmr.is.
Dómsmálaráðuneytið ber ábyrgð á verkefnum sem ná til fjölmargra sviða þjóðfélagsins og varða meðal annars almannaöryggi, löggæslu, útlendingamál, dómstóla og réttarfar. Á málefnasviði ráðuneytisins eru fjölmargar undirstofnanir víðsvegar um landið sem allar sinna mikilvægum verkefnum.