Skipun nýrrar mats- og hæfisnefndar um sérnám lækna
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur skipað mats- og hæfisnefnd um sérnám lækna í samræmi við ákvæði nýrrar reglugerðar nr. 856/2023 sem tók gildi 16. ágúst síðastliðinn. Nefndin er nú skipuð fimm sérfræðilæknum í stað þriggja áður. Formaður nefndarinnar er Ólafur Baldursson.
Með reglugerðinni sem kveður á um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta lækningaleyfi og sérfræðileyfi voru gerðar töluverðar breytingar á umgjörð og stjórnskipulagi sérnáms lækna. Einnig var fagleg umgjörð sérnámsins endurskoðuð og efld með hliðsjón af þeirri þróun sem orðið hefur á sérnámi í læknisfræði hér á landi á liðnum árum. Kröfur til námsins hafa verið skýrðar nánar og hvernig mat á sérnámi fer fram, framvinda, og námslok.
Hlutverk og verkefni nefndarinnar eru tilgreind í 22. gr. reglugerðarinnar og hefur þeim fjölgað nokkuð miðað við fyrri skipan. Meðal verkefna er að samþykkja marklýsingar fyrir sérnámsgrunn, meta hæfi heilbrigðisstofnana til að annast sérnám lækna og hafa eftirlit með sérnámi og kennslustofnunum. Nefndin skal einnig útbúa ýmis gæðaviðmið tengd marklýsingum, námi og eftirliti með því og skulu þau samræmast alþjóðlegum gæðaviðmiðum. Enn fremur skal nefndin gera tillögur til ráðherra um nám í sérgreinum sem skuli boðið upp á hér á landi.
Mats- og hæfisnefnd um sérnám lækna var fyrst skipuð árið 2015 á grundvelli reglugerðar nr. 467/2015 sem nú er fallin úr gildi. Síðan hefur umfang sérnáms lækna á Íslandi vaxið svo um munar og greinum fjölgað. Nú er boðið upp á sérnám í 16 sérgreinum hér á landi, þar af fimm sem hægt er að ljúka að fullu sem aðalgrein við íslenskar kennslustofnanir.
Skipun nefndarinnar:
- Ólafur Baldursson, formaður.
- Katrín Fjeldsted, tilnefnd af Læknafélagi Íslands.
- Eggert Eyjólfsson, tilnefndur af Læknafélagi Íslands.
- Anna Björg Jónsdóttir, tilnefnd af Framhaldsmenntunarráði lækninga.
- Jórunn Atladóttir, tilnefnd af Læknadeild Háskóla Íslands.
Varamenn eru:
- Engilbert Sigurðsson, tilnefndur af Læknafélagi Íslands.
- Elínborg Bárðardóttir, tilnefnd af Framhaldsmenntunarráði lækninga
- Davíð O. Arnar, tilnefndur af Læknadeild Háskóla Íslands.
Starfsmaður nefndarinnar er Andrea Jónsdóttir, sérfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.