Forsætisráðherra á fundi með leiðtogaráði ESB í tilefni 30 ára afmælis EES-samningsins
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í fundi forsætisráðherra EES/EFTA-ríkjanna með leiðtogaráði ESB sem haldinn var í Brussel. Forsætisráðherra var boðið til fundarins ásamt Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, og Daniel Risch, forsætisráðherra Liechtenstein, í tilefni 30 ára afmælis EES-samningsins.
Meginumfjöllunarefni fundarins var samtarf EES/EFTA-ríkjanna við ESB og staða EES-samningsins. Í ávarpi sínu á fundinum ræddi forsætisráðherra m.a. um mikilvægi EES-samningsins fyrir Ísland og þær efnahagslegu og félagslegu umbætur sem innri markaðurinn hefði fært almenningi og atvinnulífi.
Tækfæri til frekara samstarfs séu til staðar, m.a. varðandi heilbrigðismál og græn umskipti. Samstaða ríkjanna á alþjóðavettvangi sé einnig nauðsynleg til að berjast fyrir gildum eins og lýðræði, réttarríkinu, mannréttindum og jafnréttismálum. Stríðið í Úkraínu, skelfilegt ástand á Gasa og stórar áskoranir í umhverfis- og loftslagsmálum dragi skýrt fram þá nauðsyn.
Forsætisráðherrar EES/EFTA-ríkjanna áttu einnig fund með Enrico Letta, fv. forsætisráðherra Ítalíu og forseta Jacques Delors stofnunarinnar, sem vinnur nú að beiðni leiðtogaráðsins skýrslu um framtíð innri markaðarins.
Í gær flutti forsætisráðherra lokaávarp á ráðstefnu um plastmengun í hafi og opnaði listsýninguna Arctic Creatures, sem hvort tveggja er sett upp í tilefni formennsku Íslands í fastanefnd EFTA.