Síldarævintýri og fjárfestahátíð á Siglufirði
Menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, heimsótti Siglufjörð í vikunni og ávarpaði þar fjárfestahátíð Norðanáttar og heimsótti Síldarminjasafnið.
Tilgangur fjárfestahátíðarinnar var að auka fjárfestingatækifæri á landsbyggðinni og tengja frumkvöðla við fjárfesta og aðra lykilaðila í stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Ráðherra kom inn á nýsköpunarkraft og aðlögunarhæfni Siglfirðinga í ávarpi sínu og hvernig þeim hefði tekist með miklum glæsibrag að snúa vörn í sókn eftir að síldin hvarf.
„Það er vel við hæfi að halda frumkvöðlaviðburð sem þennan hér á Siglufirði, þar sem er sannkallaður kraftur í nýsköpun. Síðustu ár hefur minningunni um síldina verið gerð skil hér á Síldarminjasafninu sem er orðið eitt stærsta iðnaðarsafn Evrópu og hér er eitt glæsilegasta hótel landsins sem reist var í anda síldaráranna. Í sveitarfélaginu eru einnig starfrækt tvö líftæknifyrirtæki sem byggja framleiðslu sína á fullnýtingu sjávarafurða ásamt fjölmörgum öðrum framsýnum fyrirtækjum,“ sagði ráðherra.
Ráðherra heimsótti einnig Síldarminjasafnið og skrifaði undir samning við safnið um rekstrarframlag til ársins 2026. Safnið er vinsæll viðkomustaður ferðamanna en um 35.000 gestir heimsóttu það í fyrra. Ráðherra kíkti einnig við í Salthúsinu, sem er ný viðbót við húsakost safnsins. Þar eru vel búin varðveislurými fyrir safnkost, nýtt sýningarrými og opið rými fyrir safnverslun og kaffihús.