Nýr vefur Loftslagsvæns landbúnaðar
Á nýjum vef um verkefnið „Loftslagsvænn landbúnaður“er nú hægt að kynna sér sjálfbærni, loftslags- og umhverfismál landbúnaðar á Íslandi auk upplýsinga um þau bú sem taka þátt í verkefninu. Vefurinn er hugsaður bæði fyrir almenning sem vill kynna sér starfsemi búa sem hafa verið frumkvöðlar í loftslagsmálum landbúnaðarins og bændur sem eru að leita fyrirmynda á þessu sviði.
Verkefnið hefur verið starfrækt síðan árið 2020 og eru um sextíu bændur í sauðfjárrækt, nautgriparækt og útiræktun grænmetis þátttakendur. Loftslagsvænn landbúnaður er samstarfsverkefni Lands og skógar, matvælaráðuneytisins, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.
Í verkefninu fá bændur fræðslu og ráðgjöf um sjálfbærni, loftslags- og umhverfismál landbúnaðarins. Hvert þátttökubú setur sér árlega markmið um hvernig ætlunin er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á búinu, auka kolefnisbindingu í jarðvegi og gróðri og vinna að settum markmiðum í daglegum störfum.
Á vefnum má m.a. finna Íslandskort þar sem hvert þátttökubú segir sína sögu. Þar er kominn í fyrsta sinn vettvangur fyrir almenning og bændur til að nálgast fræðsluefni um loftslagsvæna búskaparhætti, kynna sér aðgerðir og sjá raunverulegan árangur þeirra bænda sem eru í verkefninu. Þar er einnig að finna nýtt fræðsluefni ætlað bændum um tækifæri landbúnaðarins til að draga úr losun og auka bindingu kolefnis í starfseminni.