Framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2024-2027 samþykkt í ríkisstjórn
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði fram á ríkisstjórnarfundi þann 5. apríl sl. tillögu til þingsályktunar um áttundu framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum fyrir árin 2024-2027 og var hún samþykkt.
Samkvæmt 26. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skal ráðherra leggja fyrir Alþingi á fjögurra ára fresti tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta.
Öll ráðuneytin eru með tillögur í áætluninni en hún inniheldur 45 aðgerðir og skiptist í sex efnisflokka; kyn, áhrif og þátttaka, kynjuð tölfræði og mælaborð, jafnrétti á vinnumarkaði og kynbundinn launamunur, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi, jafnrétti í menntun og íþrótta- og æskulýðsstarfi og alþjóðastarf.
Við gerð áætlunarinnar var höfð hliðsjón af umræðum á jafnréttisþingi sem haldið var í október 2022 og niðurstöðum umræðuhópa frá fundum samráðsvettvangs um jafnréttismál.
Framkvæmdaáætluninni er ætlað það hlutverk að skilgreina stefnu stjórnvalda á hverjum tíma og lýsa verkefnum sem ýmist er ætlað að varpa ljósi á stöðu kynjanna eða fela í sér beinar aðgerðir í þágu kynjajafnréttis. Hún skal fela í sér verkefni sem ætlað er að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna í íslensku samfélagi.