Hoppa yfir valmynd
12. apríl 2024 Innviðaráðuneytið

Mælt fyrir breytingum á umferðarlögum um öryggi smáfarartækja

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til breytingar á umferðarlögum, nr. 77/2019. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem hafa það markmið að auka umferðaröryggi smáfarartækja án þess að standa í vegi fyrir frekari framþróun fjölbreyttari ferðamáta. 

Rafhlaupahjól njóta mikilla vinsælda og notkun þeirra hefur margfaldast á skömmum tíma. Þeim hafa einnig fylgt áskoranir. Ökutækin geta þó skilað samfélaginu margvíslegum ávinningi ef þessum áskorunum er mætt.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu byggja á tillögum starfshóps um smáfarartæki frá árinu 2022. Þær voru í sex liðum en fimm þeirra sneru að breytingum á umferðarlögum. Þær eru:

  • Nýr ökutækjaflokkur smáfarartækja verði innleiddur í umferðarlög. Miðað verði við að smáfarartæki séu ekki hönnuð til hraðari aksturs en 25 km á klst. og að hjól yfir þeim mörkum séu óheimil í umferð.
  • Hlutlægt viðmið um áfengismagn í blóði ökumanna smáfarartækja og að refsivert verði að stjórna smáfarartæki ef áfengismagn í blóði er umfram 0,5‰ (prómill) eða vínandi í lítra útöndunarlofts umfram 0,25 milligrömm.
  • Ökumenn smáfarartækja skuli að lágmarki hafa náð 13 ára aldri og að yngri en 16 ára verði skylt að nota hjálm.
  • Almennt bann verði lagt við því að breyta hraðastillingum aflknúinna smáfarartækja, léttra bifhjóla og rafmagnsreiðhjóla.
  • Akstur smáfarartækja í almennri umferð verði leyfður á vegum þar sem hámarkshraði er ekki meiri en 30 km á klst. að því gefnu að tillögur um ölvunarakstur og aldursmörk nái fram að ganga enda geti veghaldari lagt bann við umferð smáfarartækja á einstökum vegum eða vegarköflum þyki ástæða til þess.

Nánar um ölvunarbrot

Í framsögu sinni áréttaði ráðherra að samkvæmt gildandi umferðarlögum eigi öll ölvunarbrot undir sama refsiákvæði. Það þýði hvorki að þau séu lögð að jöfnu né að þau varði sömu refsingu, heldur sé um að ræða útfærslu með hefðbundnu refsiákvæði í sérlögum. Samkvæmt gildandi umferðarlögum sé akstur smáfarartækis undir áhrifum áfengis refsiverður þegar sýnt hefur verið að ökumaður hafi sökum ölvunar verið ófær um að stjórna ökutækinu örugglega. Í stað atviksbundins mats sé lagt til að mælt verði fyrir um hlutlæg áfengismörk og aksturinn refsiverður þegar þeim er náð. Þá sé ekki lagt til að aksturinn varði sviptingu ökuréttar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta