Samráð Íslands og Bandaríkjanna um efnahags- og viðskiptamál
Samstarf Íslands og Bandaríkjanna í orku- og loftslagsmálum og hnattrænar áskoranir á sviði viðskiptamála var meðal þess sem var til umræðu í árlegu efnahagssamráði Íslands og Bandaríkjanna sem fram fór í Washington í gær.
Efnahagssamráðið, sem sett var á fót árið 2019, gegnir mikilvægu hlutverki sem vettvangur til að skiptast á upplýsingum, skilgreina sameiginlega hagsmuni og efla tvíhliða samskipti á viðskipta- og efnahagssviðinu enn frekar. Á fundinum í gær var einnig rætt almennt um tvíhliða viðskipti ríkjanna, einstök hagsmunamál, tækifæri til frekara samstarfs, skimun fjárfestinga, verndun innviða og ráðstafanir til að treysta aðfangakeðjur. Þá sammæltust fulltrúar beggja ríkja um að halda áfram samstarfi um lausnir á sviði kolefnisföngunar, vetni og jarðhita í gegnum orku- og loftslagssamstarf Íslands og Bandaríkjanna.
Fundinn í Washington sátu fulltrúar bandarískra stjórnvalda frá utanríkisráðuneyti, viðskiptaráðuneyti, orkumálaráðuneyti og fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna, auk bandaríska sendiráðsins í Reykjavík. Frá Íslandi tóku þátt fulltrúar utanríkisráðuneytis, sendiráðsins í Washington, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og viðskiptafulltrúi Íslands í Bandaríkjunum.
Amy Holman, yfirmaður deildar á sviði efnahags- og viðskiptamála í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, leiddi fundinn af hálfu Bandaríkjamanna en Ragnar G. Kristjánsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, fór fyrir íslensku sendinefndinni.