Efnahagsleg valdefling og stuðningur við jaðarsettar fjölskyldur í Úganda skilar árangri
Verkefni Hjálparstarfs kirkjunnar, sem styður við HIV smitaða, alnæmissjúka, aðstandendur þeirra og eftirlifendur í dreifbýli Úganda, hefur gefið góða raun að því er kemur fram í nýlegri miðannaúttekt á verkefninu, sem fjármagnað er af utanríkisráðuneytinu.
Samkvæmt niðurstöðunum hefur staða heimila sem verkefnið náði til batnað innan samfélaga og merki um að efnahagsleg valdefling hafi skilað tilætluðum árangri, en rík áhersla er lögð á kynjajafnrétti við framkvæmd þess. Þannig hafi verkefnið náð þeim markmiðum sem að var stefnt á tímabilinu.
„Það er einstaklega ánægjulegt að sjá í þessari úttekt hvernig stuðningur Íslands hefur skipt sköpum fyrir þennan viðkvæma og jaðarsetta hóp,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Sem fyrr eru það konur og börn sem eru í hvað viðkvæmustu stöðunni og því er afar dýrmætt að Hjálparstarf kirkjunnar geti veitt þennan stuðning. Þá kristallast hér enn og aftur reynsla okkar að með skýrri og einbeittri nálgun í þróunarsamvinnu, með nánu samstarfi við félagasamtök og yfirvöld í héraði, getum við náð góðum árangri.”
Viðkvæmir hópar í forgrunni
Skjólstæðingar verkefnisins eru fyrst og fremst börn sem misst hafa foreldra sína af völdum alnæmis og búa ein, en sömuleiðis einstæðir foreldrar með HIV og ömmur sem hafa börn á framfæri og búa við sára fátækt. Síðan 2016 hefur aðstoðin verið veitt í sveitarfélögunum Rakai og Lyantonde í samstarfi við grasrótarsamtökin Rakai Community Based AIDS Organization (RACOBAO) sem sprottin eru upp úr hjálparstarfi Lúterska heimssambandsins á svæðinu.
Við framkvæmd verkefnisins er lögð áhersla á að bæta lífsskilyrði fólks með heildrænum stuðningi, meðal annars með byggingu stöndugra húsa með grunnhúsbúnaði og eldunaraðstöðu, og þá eru einnig reistir kamrar og vatnstankar. Þar að auki fá fjölskyldurnar geitur, verkfæri, útsæði og fleira sem miðar að því að auka fæðuval og fjölbreytni. Þá er einnig hugað að efnahagslegri valdeflingu og sálfræðilegum stuðningi.
Hjálparstarf kirkjunnar er eitt fjögurra lykil félagasamtaka með rammasamninga um verkefni til þróunarsamvinnu og eru hluti af samstarfi ráðuneytisins við íslensk félagasamtök