Lögréttutjöldin aftur til sýnis á Íslandi eftir 166 ár
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, ásamt forsetahjónunum Guðna Th. Jóhannessyni og Elizu Reid, heimsótti skoska þjóðminjasafnið í opinberri heimsókn í Skotlandi í vikunni.
Meðal verkefna ráðherra var að heimsækja skoska þjóðminjasafnið og berja þar augum hin svo kölluðu íslensku lögréttutjöld sem safnið hefur samþykkt að lána til íslenska þjóðminjasafnsins í tilefni 80 ára afmælishátíðar lýðveldis á Íslandi. Þjóðminjasafn Íslands í samstarfi við Þjóðgarðinn á Þingvöllum mun sýna tjöldin sem eru talin hafa hangið í Lögréttuhúsinu á Þingvöllum á síðari hluta 18. aldar og því næst á Bessastöðum til 1858 þegar þau voru seld skoskum ferðamanni að nafni Robert Mackay Smith.
Lögréttutjöldin eru í raun tvö mislöng rúmtjöld úr ull og líni sem hafa verið saumuð saman eftir langhliðinni. Þau eru skreytt með útsaumi og áletrunum. Á öðru eru spakmæli en brot úr passíusálmi eftir Hallgrím Pétursson á hinu. Sýningin á tjöldunum verður sett upp í Horninu, Suðurgötu á þjóðhátíðardaginn og mun standa í eitt ár.
Mynd: Lögréttutjöldin skoðuð.