Stuðningur við Úkraínu efst á dagskrá á fundi með varautanríkisráðherra Bandaríkjanna
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hitti í dag Kurt Campbell, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, á fundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu. Tvíhliða samstarf Íslands og Bandaríkjanna, stuðningur við Úkraínu og málefni Miðausturlanda bar hæst á fundinum, sem og málefni norðurslóða og leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins sem haldinn verður í Washington í sumar. Samskipti við Kína voru sömuleiðis til umræðu.
„Þetta var afar efnisríkt samtal um mál sem ber hæst á alþjóðavettvangi um þessar mundir, ekki síst mikilvægi áframhaldandi stuðnings við Úkraínu en þau mál hafa mjög verið í deiglunni hér í Washington í vikunni. Óhjákvæmilega ræddum við einnig um stöðu mála í Miðausturlöndum sem er mikið áhyggjuefni,” segir utanríkisráðherra.
Samráð Íslands og Bandaríkjanna um efnahags- og viðskiptamál fór fram í Washington í síðustu viku og framundan er árlegt pólitískt samráð í Reykjavík. „Bandaríkin eru ein okkar nánasta samstarfs- og vinaþjóð og því er afar mikilvægt að eiga í reglulegum og góðum samskiptum við ráðamenn vestanhafs,” sagði Þórdís Kolbrún enn fremur.
Utanríkisráðherra fundaði í heimsókn sinni til Washington einnig með Íslandsvinahópi bandarískra þingmanna, svokölluðum Iceland Caucus, sem stofnað var til á síðasta ári. Tilgangur vinahópa á Bandaríkjaþingi felst einkum í því að skapa óformlegan samstarfsvettvang fyrir hóp þingmanna sem láta sig varða sérstaka málaflokka eða vináttu við tiltekin ríki. Þá hitti ráðherra öldungadeildarþingmanninn Deb Fischer en hún heimsótti Ísland síðasta haust til að kynna sér fjárfestingar og viðbúnað Bandaríkjanna.
Síðdegis í dag skrifaði Þórdís Kolbrún síðan undir nýtt samkomulag um aukin framlög Íslands til Hnattræna jafnréttissjóðsins (Global Equality Fund) sem er á forræði bandaríska utanríkisráðuneytisins. Þetta er fimmta árið sem Ísland leggur fé til sjóðsins sem beinir stuðningi sínum til frjálsra félagasamtaka sem vinna að mannréttindum hinsegin fólks. Robert Gilchrist skrifaði undir fyrir hönd utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna en Jessica Stern, sérlegur erindreki Bandaríkjaforseta í málefnum hinsegin fólks, var einnig viðstödd.