Öll með: Fjöldi fólks fylgdist með kynningu á fyrirhuguðum breytingum á örorkulífeyriskerfinu
Einfaldara og réttlátara örorkulífeyriskerfi var kynnt á fundi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, sem fram fór í Safnahúsinu við Hverfisgötu, betur þekkt sem Þjóðmenningarhúsinu, fyrr í dag. Yfirskrift fundarins var „Öll með“ og fylgdist fjöldi fólks með beinni útsendingu af fundinum.
Fyrirhugaðar breytingar fela í sér bætta þjónustu, mikilvæga hvata til atvinnuþátttöku og bætt kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi.
Þá er stuðningur aukinn við fólk meðan á endurhæfingu þess stendur, samvinnu þjónustuaðila komið á og áhersla lögð á að hindra að fólk falli á milli kerfa.
„Fólk á ekki að mæta þröskuldum heldur þjónustu. Við umbyltinguna tökum við betur utan um fólk en áður og búum til hvata til að gera því kleift að blómstra. Grunnhugsunin er sú að við séum öll með og skiptum öll máli,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í kynningu sinni.
Ráðherra benti á að breytingarnar væru langþráðar og að ákall hefði verið eftir því svo árum skipti að kerfinu yrði breytt og það bætt. Mikil áhersla væri í nýja kerfinu á að draga úr hindrunum og aðstoða fólk sem vildi og gæti stundað atvinnu að gera það – en ekki síður að halda utan um þau sem ekki taka þátt á vinnumarkaði.
Meðal nýmæla í nýja kerfinu:
Samvinna þjónustuaðila og samhæfingarteymi: Samhæfingarteymi hafa yfirsýn yfir mál einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir. Einstaklingurinn er leiddur á milli þjónustuaðila og skýrt er hvar ábyrgðin liggur.
Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur: Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur stoppa í göt sem eru í kerfinu í dag. Með þeim er komið á samfelldu greiðslutímabili fyrir fólk sem þarf á endurhæfingu að halda vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests.
Nýr örorkulífeyrir: Tveir greiðsluflokkar almannatrygginga og einn greiðsluflokkur félagslegrar aðstoðar sameinast í einn flokk: Örorkulífeyri. Breytingarnar auka ekki einungis réttindi örorkulífeyrisþega heldur mun langstærstur hluti þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt gildandi lögum fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.
Hlutaörorkulífeyrir: Hlutaörorkulífeyrir hefur í för með sér verulega aukinn stuðning við þau sem ekki hafa fulla getu til virkni á vinnumarkaði en sem þó eru talin geta tekið þátt á vinnumarkaði að einhverju leyti.
Dregið úr hindrunum: Fólk sem fær greiddan örorkulífeyri má í nýju kerfi hafa 100.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til þess lækki. Fólk sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri og er í hlutastarfi getur haft 350.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til þess lækki.
Virknistyrkur: Virknistyrkur grípur fólk sem á rétt á hlutaörorkulífeyri meðan það leitar að vinnu með aðstoð Vinnumálastofnunar í allt að 24 mánuði.
Hærri greiðslur í nýju og einfölduðu greiðslukerfi
Fram kom á fundinum að 95% örorkulífeyrisþega muni fá hærri greiðslur í nýju og einfölduðu greiðslukerfi.
- 74% hækka um 30.000 kr. eða meira á mánuði
- 6% hækka um 10.000-30.000 kr. á mánuði
- 15% hækka um allt að 10.000 kr. á mánuði
Þá kynnti ráðherra reiknivél þar sem fólk getur borið saman hvað það fær í örorkulífeyri í núverandi greiðslukerfi og hvað það myndi fá í nýju greiðslukerfi. Reiknivélin miðast við þau sem hafa áunnið sér full réttindi í íslenska almannatryggingakerfinu, eru búsett hér á landi og hafa 75% örorkumat. Athugið að fólk sem þetta á ekki við um og sem slær inn sínar upplýsingar í reiknivélina mun fá rangar niðurstöður.
- Sjá vef um breytingarnar: Öll með: Breytingar á örorkulífeyriskerfinu
- Sjá samantekt um breytingarnar: Öll með: Breytingar á örorkulífeyriskerfinu
Af fundinum í dag. Við hlið ráðherra situr Vigdís Jónsdóttir, þá Sigríður Dóra Magnúsdóttir, Huld Magnúsdóttir og Þuríður Harpa Sigurðardóttir lengst til vinstri.
„Fólk þarf ekki að vera í angist um framfærslu sína“
Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK, ræddi í sínu innleggi á fundinum um áhrif fyrirhugaðra breytinga á fólk í endurhæfingu.
„Við hjá VIRK sjáum gríðarleg tækifæri í þessum kerfisbreytingum og það eru miklir hagsmunir þarna fyrir okkar þjónustuþega,“ sagði hún.
Vigdís undirstrikaði að þau sæju mikil tækifæri í nýjum sjúkra- og endurhæfingargreiðslum, til dæmis þegar fólk væri að fara á milli kerfa og þyrfti að bíða. Greiðslurnar myndu gera fólki kleift að hafa trygga framfærslu á meðan á endurhæfingarferlinu stæði.
„Þannig að það þarf ekki að vera í angist um framfærslu sína,“ sagði hún. „Þetta er svo mikilvægt fyrir okkar fólk í endurhæfingunni, að breyta kerfinu og breyta greiðslunum á þennan hátt.“
Þá sagði Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að mjög jákvætt væri að kerfið væri einfaldað. Það myndi einfalda verulega líf skjólstæðinga heilsugæslunnar. „Þessi óvissa, að vera detta á milli í kerfinu, þessi framfærslukvíði, hann hefur verið mjög áþreifanlegur og skiljanlegur,“ sagði hún.
Í nýja kerfinu skipti ekki máli hvort eitthvað sem sett væri upp í endurhæfingu myndi ekki ganga upp - fólk færi áfram í kerfinu og myndi ekki lenda aftur á núllpunkt eins og mörg dæmi væri um í kerfinu í dag. Millistig hefði verið í höndunum á heimilislæknum en nú ætti að koma upp samhæfingarteymum.
„Við fögnum þessu mjög og lítum á þetta til hagsbóta fyrir okkar skjólstæðinga. Og þetta mun svo sannarlega létta álaginu á heilbrigðisstarfsfólki,“ sagði hún.
Loks flutti Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, innlegg og ræddi um bætt greiðslukerfi.
„Við hjá Tryggingastofnun erum mjög jákvæð gagnvart þessum breytingum. Við lítum svo á að þetta muni gera kerfið miklu skilvirkara og það er okkur öllum til hagsbóta,“ sagði Huld.
„Breytingin er í rauninni samvinna, samtal og samhæfing. Þetta formgerir miklu betur samstarf milli stofnana og það hjálpar okkur og það hjálpar líka fólkinu sem er að leita til okkar. Við getum þá vonandi með þessu gripið fólk miklu betur en við erum að gera í dag.“
Fundarstjóri á fundinum í dag var Þuríður Harpa Sigurðardóttir. Lengi hefur verið brýnt að endurskoða örorkulífeyriskerfið og mælti ráðherra á dögunum fyrir frumvarpi á Alþingi vegna breytinganna.
Af vef um fyrirhugaðar breytingar. Vefurinn opnast þegar smellt er á myndina.
Helstu breytingar á kerfinu:
Meginefni frumvarpsins snýr að breytingum á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um vinnumarkaðsaðgerðir.
Samvinna þjónustuaðila og samhæfingarteymi:
Lagt er til að þeir þjónustuaðilar sem veita endurhæfingarþjónustu skuli eiga með sér samstarf og samvinnu um endurhæfingu einstaklinga sem þurfa þjónustu fleiri en eins kerfis eða þurfa að fara á milli kerfa. Þetta á ekki síst við um þau sem eru með fjölþættan vanda. Komið skal á samhæfingarteymum sem hafa yfirsýn yfir mál einstaklinga með flóknar þjónustuþarfir. Teymin leggja til þá þjónustu sem gæti gagnast viðkomandi og skýrt er hvar ábyrgðin liggur.
- Með markvissri samvinnu þjónustuaðila er stuðlað að heildstæðri nálgun og samfellu í endurhæfingu fólks þannig að það fær frekar rétta þjónustu á réttum tíma. Einstaklingurinn er leiddur á milli þjónustuaðila og skýrt er hvar ábyrgðin liggur.
Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur:
Lagt er til að komið verði á fót sjúkra- og endurhæfingargreiðslum sem styrkja verulega stöðu þeirra sem þurfa á endurhæfingu að halda vegna langvarandi eða alvarlegs heilsubrests. Þær koma í stað endurhæfingarlífeyris og ná til breiðari hóps af fólki en áður. Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur eru fyrir fólk sem fær viðurkennda meðferð, tekur þátt í endurhæfingu, bíður eftir að komast að í viðurkenndri meðferð eða endurhæfingarúrræði með það að markmiði að stuðla að aukinni þátttöku á vinnumarkaði eða eftir því að viðkomandi teljist fær um að hefja meðferð eða endurhæfingu. Til grundvallar greiðslunum liggur endurhæfingaráætlun sem tryggja skal að taki mið af þörfum einstaklingsins hverju sinni.
- Sjúkra- og endurhæfingargreiðslur stoppa í göt sem eru í kerfinu í dag. Með þeim er komið á samfelldu greiðslutímabili fyrir fólk í endurhæfingu. Markmiðið er að draga úr áhyggjum fólks af framfærslu sinni meðan á ferlinu stendur, halda betur utan um fólk og auka líkur á farsælli endurkomu þess til vinnu.
Samþætt sérfræðimat:
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að horfið verði frá örorkumati eins og við þekkjum það í dag, en þess í stað tekið upp samþætt sérfræðimat sem er heildrænt mat á getu viðkomandi til virkni á vinnumarkaði. Matið byggir á hugmyndafræði alþjóðlegs flokkunarkerfis um færni, fötlun og heilsu (International Classification of Functioning, Disability and Health, ICF) og kemur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO. Hugsunin að baki því snýr að valdeflingu og að styðja fólk til að nýta sem best alla sína getu.
- Með nýja matinu er horft heildrænt á einstaklinginn en ekki einungis einblínt á læknisfræðilega þætti. Megináherslan er á færni viðkomandi í samspili við umhverfi og aðstæður.
Nýr örorkulífeyrir:
Lagt er til að tveir greiðsluflokkar almannatrygginga og einn greiðsluflokkur félagslegrar aðstoðar verði sameinaðir í einn flokk: Örorkulífeyri. Hann greiðist þeim einstaklingum sem hafa verið metnir með 0-25% getu til virkni á vinnumarkaði. Reglur um útreikning greiðslna eru auk þess gerðar einfaldari og skýrari og gert ráð fyrir nýju almennu frítekjumarki að fjárhæð 100.000 kr. á mánuði.
- Breytingarnar auka ekki einungis réttindi örorkulífeyrisþega heldur mun langstærstur hluti þeirra sem fá greiddan örorkulífeyri samkvæmt gildandi lögum fá hærri greiðslur í nýja kerfinu.
Hlutaörorkulífeyrir:
Lagt er til að tekið verði upp það nýmæli að greiða hlutaörorkulífeyri. Hann er fyrir fólk sem uppfyllir ekki skilyrði fyrir örorkulífeyri og hefur 26-50% getu til virkni á vinnumarkaði. Þau sem hafa tækifæri til að vinna hlutastörf geta með þessu aukið ráðstöfunartekjur sínar umtalsvert því auk mögulegra launa munu þau eiga rétt á hlutaörorkulífeyrinum.
- Hlutaörorkulífeyrir hefur í för með sér verulega aukinn stuðning við þau sem ekki hafa fulla getu til virkni á vinnumarkaði en sem þó eru talin geta tekið þátt á vinnumarkaði að einhverju leyti. Þannig gefst þeim samtímis kostur á virkni og að bæta ráðstöfunartekjur sínar.
Tvö úrræði til viðbótar, virknistyrkur og sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna, styðja síðan enn betur við umræddan hóp sem hingað til hefur mætt hindrunum við að fara út á vinnumarkað.
Virknistyrkur:
Lagt er til að tekinn verði upp sérstakur virknistyrkur sem ætlað er að grípa fólk sem á rétt á hlutaörorkulífeyri meðan það leitar að vinnu. Þannig er hann mikilvægur hvati til atvinnuþátttöku. Fólk getur fengið virknistyrk í allt að 24 mánuði meðan það er í virkri atvinnuleit og nýtur auk þess aðstoðar Vinnumálastofnunar við leitina. Styrkurinn fellur niður þegar og ef fólk hefur störf. Hafi fólk ekki fengið starf eftir 24 mánuði getur það óskað eftir nýju samþættu sérfræðimati.
- Virknistyrknum er ætlað að aðstoða þau sem eiga rétt á hlutaörorkulífeyri að stíga skrefið og fara út á vinnumarkað. Gangi leit að hlutastarfi ekki sem skyldi grípur virknistyrkurinn viðkomandi. Einfaldara en áður er þannig fyrir fólk að prófa sig áfram við að fara út á vinnumarkað.
Sérstakt frítekjumark þeirra sem fá hlutaörorkulífeyri:
Frítekjumark eru þær tekjur sem fólk má hafa án þess að greiðslur til þeirra lækki vegna tekna. Lagt er til að komið verði á stórauknum hvötum fyrir fólk sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri til að fara út á vinnumarkað. Þetta er gert með því að leggja til að sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna þeirra verði 250.000 kr. á mánuði. Almennt frítekjumark þeirra verður 100.000 kr. og samanlagt getur einstaklingur sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri því haft 350.000 kr. í tekjur á mánuði án þess að greiðslur til hans lækki.
- Í dag geta greiðslur til fólks lækkað um leið og það fær greidd laun á vinnumarkaði. Breytt frítekjumörk í nýju kerfi gefa fólki sem fær greiddan hlutaörorkulífeyri tækifæri til að afla sér tekna án þess að það hafi strax áhrif á greiðslur þeirra. Fólk getur þannig aukið ráðstöfunartekjur sínar til muna.
„Fólk sem metið hefur verið á örorku hefur í gegnum tíðina gjarnan óttast það að fara út á vinnumarkað, þar sem samspil bótaflokka hefur verið flókið og áhrif annarra tekna á þá er mismunandi í núverandi kerfi og nær ómögulegt fyrir fólk að átta sig á því hvaða áhrif atvinna getur haft á greiðslur til þess,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Nú hefur dæminu verið snúið við – við höfum dregið úr tekjutengingum, bæði með því einfalda kerfið sjálft og með því að leggja til alvöru hvata fyrir fólk til að fara út á vinnumarkað. Í stað þess að refsa fólki fyrir að vinna fær það í nýja kerfinu stuðning til að taka þátt á vinnumarkaði og hefur hag að því.“
Gagnsærra og réttlátara örorkulífeyriskerfi
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að málefni örorkulífeyrisþega verði tekin til endurskoðunar á kjörtímabilinu með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði einstaklinga með skerta starfsorku. Örorkulífeyriskerfið skuli einfaldað, dregið úr tekjutengingum og það gert skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Ofangreint frumvarp miðar sem fyrr segir að þessu.
Samhliða frumvarpinu er unnið að margvíslegum vinnumarkaðsaðgerðum. Þegar hefur stuðningur við ungt fólk í viðkvæmri stöðu til að mynda verið stórefldur til að fyrirbyggja brotthvarf af vinnumarkaði.
Frumvarpið var unnið í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og er afrakstur víðtæks samráðs við helstu haghafa, stofnanir, önnur ráðuneyti og aðra hlutaðeigandi.
- Sjá einnig: Miðstöð um auðlesið mál: Frétt á auðlesnu máli um drögin að frumvarpinu þegar það var birt í samráðsgátt stjórnvalda.