Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Hildurgunnur opnar fyrir fullu húsi í Feneyjum

Frá opnun sýningar Hildigunnar Birgisdóttur á Feneyjatvíæringnum - myndEinar Falur Ingólfsson

Sýning Hildigunnar Birgisdóttur Þetta er mjög stór tala (Commerzbau) opnaði formlega síðastliðinn fimmtudag á Feneyjatvíæringnum og lýkur í dag. Sýningin er undir sýningarstjórn bandaríska sýningarstjórans Dan Byers og samanstendur af nýjum skúlptúrum og innsetningum. Sýningin var vel sótt líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd frá opnun íslenska skálans. 

Í umfjöllun á síðu Myndlistarstöðvar er sýningunni lýst svo: „Þetta er mjög stór tala (Commerzbau) bregst við rými íslenska skálans og Feneyjatvíæringsins sjálfs á gáskafullan hátt með sýningu sem vekur okkur til umhugsunar um hugmyndir okkar um fegurð, virði og notagildi í samhengi alþjóðlegs listviðburðar.

Þegar gestir koma inn í skálann mætir þeim við fyrstu sýn hefðbundið hvítt sýningarrými en þegar betur er að gáð eru veggirnir málaðir í gulnuðum hvítum lit líkt og finna má á gömlum plastljósarofum og rafmagnssnúrum. Tveir litlir plastskúlptúrar úr stjórnborðum heimilisprentara og ísskáps blikka linnulaust, í og úr takti við hvorn annan. Blikkljósið sem gefur til kynna að blaðið sé fast í prentaranum eða að ísskápshurðin hafi verið skilin eftir opin.

Lítil plastleikföng gerð fyrir dúkkuhús —pítsa, steik og tannlæknatól sem dæmi — eru skönnuð, stækkuð og þrívíddarprentuð af þýsku fyrirtæki og fanga undarlega slétt yfirborðin og framleiðsluummerkin á þessum fjöldaframleiddu þroskaleikföngum.

Merki framleiðenda, sjóða, fyrirtækja og söluaðila sem koma að gerð sýningarinnar, prýða stærðarinnar veggverk sem unnið er úr endurnýttu gólfefni af Tvíæringnum í arkitektúr 2023. Með verkinu er hið hulda gangverk tvíæringsins dregið fram í dagsljósið. Yfirborð viðamikillar vegginnsetningarinnar er þakið heilmyndum, framleiddum af fyrirtæki sem sérhæfir sig í heilmyndaprentun á peningaseðlum. Þannig munu yfir 70 lógó glitra og tindra fyrir augum áhorfenda.“

Hildigunnur er þekkt fyrir blæbrigðaríka listsköpun sem lítur gagnrýnum augum á hnattræn framleiðslu- og útflutningskerfi og á undarlegt lífshlaup varanna sem þau geta af sér. Í verkum sínum dregur Hildigunnur athygli að hinu smáa, einnota hlutunum sem gjarnan eru fjöldaframleiddir fylgihlutir neyslumenningar: umbúðum, verðmiðum, merkingum og upplýsingakerfum. Hún gefur þessum hlutum ný hlutverk, umbreytir virði þeirra og merkingu algerlega þannig að hægt sé að upplifa þá aftengda uppruna sínum. Um efnistök sín segir Hildigunnur: „Óheppilegar afurðir neysluhyggju eru efniviðurinn og manngerð kerfi eru áhöldin.” Sýning Hildigunnar í íslenska skálanum er undir áhrifum „Merzbau”, hugtaks sem komið er frá þýska dadaistanum Kurt Schwitters. Hann var einn af þeim fyrstu til að gera innsetningar þar sem hlutum er raðað saman í rými líkt og klippimynd á tvívíðum fleti. Schwitters byrjaði að nota hugtakið „Merz” eftir að hafa rekist á blaðsnepil með seinni hluta orðsins „Commerz”. Hildigunnur endurinnleiðir fyrri hlutann „Com” og skapar sitt eigið „Com-merz-bau” úr framleiðslueiningum og hliðarafurðum verslunar og viðskipta, sérsniðið að rými sýningarskálans.

 

Dan Byers og Hildurgunnur Birgisdóttir. Mynd: Ugo Carmeni

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta