Hoppa yfir valmynd
24. apríl 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Tónlistarmiðstöð opnuð formlega í gær

Einar Bárðason, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og María Reynisdóttir framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar.  - mynd
Tónlistarmiðstöð var formlega opnuð í gær í nýjum höfuðstöðvum við Austurstræti 5 í Reykjavík. Tónlistarmiðstöð er stofnuð með það að markmiði að verða einn af hornsteinum íslensks tónlistarlífs og -iðnaðar. Tillagan að framkvæmd hennar kemur úr skýrslu starfshóps sem skipaður var af mennta- og menningarmálaráðherra á Degi íslenskrar tónlistar þann 1. desember 2020. María Rut Reynisdóttir er framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar og leiðir þar teymi sérfræðinga sem geta nú sameinað krafta sína í þágu íslenskrar tónlistar – undir einu þaki.

„Með því að færa íslenskri tónlist varanlegt heimili er verið að taka mikilvæga stefnu til framtíðar og gera þá umgjörð sem við höfum skapað listgreininni mun aðgengilegri. Nú verður hægt að leita á einn og sama staðinn eftir stuðningi, upplýsingum og innblæstri sem áður dreifðist yfir fjölda stofnanna. Þannig sameinast mikilvæg þekking og framtíðaráform undir einu þaki. Verkefni Tónlistarmiðstöðvar eru því mörg og spennandi. Það er ekki síst íslensku tónlistarfólki að þakka sem hefur með krafti sínum kveikt neista sem hefur skilað okkur einskærum áhuga á að leggja stund á tónlist, skapa tónlist og njóta tónlistar,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Hlutverk Tónlistarmiðstöðvar er að vera samstarfsvettvangur hagsmunaaðila tónlistar á Íslandi, sinna fræðslu og stuðningi við tónlistarfólk og tónlistartengd fyrirtæki, styðja við uppbyggingu tónlistariðnaðarins, kynna íslenska tónlist og tónlistarfólk á erlendri grundu og vera nótnaveita fyrir íslensk tónverk. Tónlistarmiðstöð er jafnframt falin umsjón með rekstri og starfsemi nýs Tónlistarsjóðs sem sameinar gamla Tónlistarsjóð, Hljóðritasjóð og Útflutningssjóð. Upplýsingar um umsóknarfresti má nálgast á nýjum vef miðstöðvarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta