Almenn þátttaka í bólusetningum forsenda árangurs
Evrópsk bóluefnavika stendur nú yfir og samhliða er haldið upp á hálfrar aldar afmæli bólusetningaráætlunar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) fyrir börn. Bólusetningar koma í veg fyrir útbreiðslu banvænna sjúkdóma og hafa bjargað milljónum mannslífa. Upphaf bólusetninga á Íslandi má rekja til ársins 1802 þegar byrjað var að bólusetja við bólusótt. Upp úr 1950 hófust hér almennar bólusetningar barna og með þeim hefur tekist að nær útrýma mörgum sjúkdómum sem áður voru alvarleg ógn við líf og heilsu barna.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að við sofnum ekki á verðinum þegar bólusetningar eru annars vegar: „Alvarlegir sjúkdómar sem hefur tekist að mestu að útrýma úr samfélaginu með almennum bólusetningum geta náð sér á strik ef við gætum ekki að okkur. Ég hvet því foreldra og forráðamenn til að þiggja þær almennu bólusetningar sem eru í boði og sóttvarnalæknir mælir með fyrir börnin sín.“
Mikilvæg hvatning á heimsvísu
Árangursríkar bólusetningar sem koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma og alvarlega faraldra byggjast á almennri þátttöku í bólusetningum sem skapar hjarðónæmi. Hér á landi er bólusetningarþátttaka almennt góð. Áhersla er lögð á greiðan aðgang að bólusetningum í heilbrigðiskerfinu, upplýsingar og fræðslu um mikilvægi þeirra og góða samvinnu við foreldra. Öflugt ungbarnaeftirlit heilsugæslunnar skiptir höfuðmáli í þessu samhengi.
WHO hleypti bólusetningaráætlun sinni (EPI) af stokkunum árið 1974, til að tryggja jafnan aðgang barna að bóluefnum, óháð landfræðilegri staðsetningu eða félagslegri stöðu. Áætlunin hefur þróast ört frá upphafi og reynst afar árangursrík á heimsvísu. Upphaflega var áhersla lögð á að vernda öll börn gegn berklum, barnaveiki, stífkrampa, kíghósta, mænuveiki og mislingum. Nú eru almennt ráðlagðar bólusetningar gegn 13 sjúkdómum, auk annarra bólusetninga sem tengjast staðbundnum aðstæðum. 50 ára afmæli áætlunarinnar er mikilvæg hvatning fyrir almennar bólusetningar, hér á landi líkt og annars staðar.