Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Alþjóðlegur leiðtogafundur um málefni kennara (ISTP) verður haldinn í Reykjavík vorið 2025

Mike Thiruman, formaður Kennarasambands Singapúr, Chan Chun Sing menntamálaráðherra Singapúr, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands - mynd

Alþjóðlegur leiðtogafundur um menntamál og málefni kennara (ISTP) verður haldinn í Reykjavík í mars 2025. Þetta var tilkynnt við hátíðlega athöfn á nýafstöðnum leiðtogafundi sem fram fór í Singapore í liðinni viku. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, tók við keflinu úr höndum Chan Chun Sing menntamálaráðherra Singapúr.

ISTP stendur fyrir International Summit of the Teaching Profession og til fundarins koma ráðherrar menntamála og leiðtogar kennarasambanda frá ríkjum sem eiga aðild að OECD (Efnhags- og framfarastofnuninni). Leiðtogafundurinn er gott tækifæri fyrir ráðherra og leiðtoga kennara til að deila reynslu og þekkingu á hvernig best megi stuðla að gæðamenntun með öfluga kennara við stjórnvölinn.

ISTP er árlegur viðburður og umræðuefnið helgað kennarastarfinu, áskorunum til framtíðar, starfsumhverfi og starfsþróun kennara og hvernig best megi innleiða menntaumbætur.

Mennta- og barnamálaráðuneytið stendur að fundinum í Reykjavík ásamt Kennarasambandi Íslands í samstarfi við OECD og Education International (Alþjóðasamtök kennara).

„Ég er mjög ánægður að Ísland hafi orðið fyrir valinu til að halda þennan mikilvæga viðburð um málefni kennara og gæðamenntun á öllum skólastigum. Leiðtogafundur sem þessi er dýrmætur til að efla samtal þeirra aðildarríkja OECD sem taka þátt í samstarfinu. Það er margt sem við getum lært af hvert öðru en Ísland getur einnig miðlað því sem vel hefur gengið hér á landi sem styður við farsæld og vellíðan barna og ungmenna og þátttöku þeirra í íþrótta- og tómstundastarfi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Menntamálaráðherrar nítján OECD-ríkja ásamt gestgjöfum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta