Mælaborð um farsæld barna opnað
Mælaborð farsældar barna, nýtt verkfæri við innleiðingu farsældarlaga og gagnadrifinnar stefnumótunar um hag barna, var opnað við hátíðlega athöfn í dag. Mælaborðið hefur verið í þróun frá því ritun farsældarlaganna hófst og farið fram í umfangsmiklu samráði við önnur ráðuneyti, fræðasamfélagið, hagaðila, sveitarfélög og ekki síst börn. Hægt er að nálgast mælaborðið á vef farsældar barna, www.farsaeldbarna.is.
Í mælaborðinu eru fimm grunnstoðir farsældar skilgreindar: Menntun, heilsa og vellíðan, öryggi og vernd, lífsgæði og félagsleg staða, þátttaka og félagsleg tengsl. Grunnstoðirnar ramma inn forsendur þess að börn nái að vaxa og dafna í nútíð og framtíð. Undir hvern grunnþátt falla tölfræðigögn er gefa mynd af stöðu hvers þáttar og lýsa farsæld barna hér á landi með heildstæðum hætti. Gögnin eru birt út frá fjölda bakgrunnsbreyta og hægt er að skoða þau með tilliti til landshluta og átta stærstu sveitarfélaganna.
„Mælaborðið er liður í að veita yfirsýn yfir stöðu farsældar barna hér á landi með sérstaka áherslu á viðkvæma hópa og samfélagslegar áskoranir. Við lítum á þetta sem verkfæri til að gera enn betur í málefnum barna og ég hlakka til að sjá það þróast og dafna. Það er liður í því að halda áfram að brjóta niður múrana milli kerfa í málefnum barna. Mig langar að þakka öllum þeim sem lögðu hönd á plóg og óska á sama tíma öllum til hamingju með þennan stóra áfanga,“ segir Ásmundur Einar Daðason.