Dómsmálaráðherra ávarpaði ráðherrafund ESB um málefni flóttamanna
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, ávarpaði aðildarríki Evrópusambandsins (ESB) og samstarfsríki Schengen á ráðherraráðstefnu í Gent í Belgíu. Ráðstefnan var haldin að frumkvæði Belga, sem sinna formennsku innan ráðherraráðs Evrópusambandsins, og tileinkuð innleiðingu á heildarpakka ESB um málefni er varða flóttafólk og alþjóðlega vernd (e. Pact on Migration and Asylum). Evrópuþingið samþykkti pakkann 11. apríl sl. og er stefnt að því að ráðherraráð samþykki hann formlega 14. maí nk.
Hælispakki ESB hefur það markmið að ná betri yfirsýn og stjórn á umsækjendum um alþjóðlega vernd og einstaklingum í ólögmætri för innan Schengen-svæðisins. Með innleiðingu pakkans mun ríkja meiri samábyrgð á meðal aðildarríkja ESB en verið hefur en markmiðið er að ná góðu jafnvægi á milli samábyrgðar og ábyrgðar aðildarríkja (e. Solidarity and responsibility). Hæliskerfið í heild, það er frá því umsækjandi leggur fram umsókn og þar til hann annað hvort fær vernd eða er vísað brott af Schengen svæðinu, á að verða bæði hraðara og skilvirkara.
Ísland er einungis skuldbundið til að innleiða þær gerðir sem teljast til þróunar á Schengen-regluverkinu og samningi Íslands um aðild að Dyflinnarsamstarfinu og fingrafaragagnagrunni Eurodac. Ísland hefur á vettvangi ráðherraráðs ESB annars vegar fullyrt að Ísland muni innleiða að fullu þær gerðir sem Ísland er skuldbundið til að innleiða og hins vegar sagt að mikilvægt sé að skoða pakka ESB í heild enda mikilvægt að fylgja Evrópu í þessum málum og þannig tryggja samræmi í allri framkvæmd. Það liggur því fyrir að umfangsmikil vinna er fram undan við innleiðingu á reglugerðum pakkans sem taka gildi um mitt ár 2026.
Dómsmálaráðherra sagði í ræðu sinni að ljóst væri að vinnan við gerð samkomulagsins hafi verið viss áskorun og að um sögulegan áfanga sé að ræða. Einungis hluti pakkans væri skuldbindandi fyrir Ísland. Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að koma á samhæfðu kerfi innan Evrópu til að takast á við þau verkefni sem fylgja fólksflótta og alþjóðlegu verndarkerfi og því muni Ísland kanna möguleika á aukinni samhæfingu íslenska kerfisins við það evrópska, umfram það sem Ísland er skuldbundið til að innleiða.
Ráðherrar aðildarríkja ESB voru almennt sammála um að innleiðing þeirra reglugerða sem mynda hælispakkann væri mikil áskorun. Greina mátti samhljóm ráðherra um mikilvægi samræmingarhlutverks framkvæmdastjórnar ESB næstu tvö árin sem þegar hefur gefið út samræmda innleiðingaráætlun sem aðildarríkjum ber að fylgja. Aðildarríkjum ESB og samstarfsríkjum Schengen ber einnig að útbúa sérstaka landsáætlun með skýrum aðgerðum og tímafrestum.
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra:
“Það er ljóst að verndarkerfið í Evrópu allri á undir högg að sækja. Það er mikilvægt að standa vörð um hið alþjóðlega verndarkerfi og sjá til þess að þeir sem í það sækja og eiga ekki erindi standi utan þess kerfis og fólk sem fær synjun yfirgefi Schengen-svæðið. Kerfið þarf með öðrum orðum að vera skilvirkara og koma í veg fyrir misnotkun.”
Ríkisstjórnin sammæltist nýlega um aðgerðir í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda. Á grundvelli þeirra aðgerða verður tekið utan um málaflokkinn með heildstæðum hætti með aukinni samhæfingu á milli ráðuneyta og stofnana. Markmiðið er að stuðla að betri, skilvirkari og skýrari framkvæmd innan málaflokksins, og bættri þjónustu til að renna styrkari stoðum undir stjórn útlendingamála. Unnið verður að því að fækka umsóknum um alþjóðlega vernd, stytta málsmeðferðartíma umsókna og auka árangur í brottflutningi þeirra sem hafa fengið synjun á alþjóðlegri vernd.