Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Flutningur ráðuneytisstjóra milli fjármála- og efnahagsráðuneytis og innviðaráðuneytis

Hermann Sæmundsson - mynd

Fjármála- og efnahagsráðherra , innviðaráðherra og Hermann Sæmundsson hafa gert með sér samkomulag um flutning Hermanns í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Hermann tekur við frá og með 1. maí 2024.

Hermann hefur starfað í Stjórnarráði Íslands frá því í október 1996 en þá réðst hann til starfa sem sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í félagsmálaráðuneytinu. Hann var skipaður í embætti skrifstofustjóra í sama ráðuneyti árið 2002. Frá 2004 til 2008 var hann fulltrúi félagsmálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis í sendiráði Íslands í Brüssel en tók við sem skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu að því loknu. Hermann var skipaður skrifstofustjóri skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga í innanríkisráðuneytinu í ársbyrjun 2011 en við uppskiptingu þess um mitt ár 2017 tók hann stöðu skrifstofustjóra skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Hermann var skipaður skrifstofustjóri stefnumála í forsætisráðuneytinu í október 2021. Hermann var skipaður ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu í maí 2023.

Hermann var settur ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneyti á árunum 2002 til 2004 og gegndi um langt skeið hlutverki staðgengils ráðuneytisstjóra. Hermann hefur því starfað í Stjórnarráði Íslands í hartnær 28 ár. Hann hefur samhliða embætti gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum í umboði ráðherra. Hermann býr því yfir mikilli og fjölþættri reynslu innan Stjórnarráðsins og íslenskrar stjórnsýslu.

Hermann er fæddur árið 1965, hann tók stúdentspróf frá Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra 1986, lauk BA prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 1991 og meistaraprófi frá Háskólanum í Árósum árið 1996 í stjórnsýslu- og stjórnmálafræði.

Embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytis var auglýst í Lögbirtingablaðinu þann 19. febrúar sl. Átta umsóknir bárust um stöðuna. Þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd var skipuð til undirbúnings skipunar í embættið í samræmi við 19. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Með flutningi Hermanns hefur ráðherra fallið frá því ráðningarferli sem hófst 19. febrúar sl. og nýtt sér heimild 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að flytja annan embættismann í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta