Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Leggja fram 50 tillögur um leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt Ásmundi Friðrikssyni og Gunnlaugu Helgu Ásgeirsdóttur. Á myndina vantar Lilju Rafney Magnúsdóttur, sem einnig var í starfshópinum. - mynd

Með nýtingu nýrra orkugjafa og bættri orkunýtni eru umtalsverð tækifæri til að auka orkuöryggi og mæta að hluta til eftirspurn eftir viðbótarorku, svo ná megi markmiði ríkisstjórnarinnar um full orkuskipti árið 2040. Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, skipaði í apríl í fyrra til að kanna helstu leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar, með hliðsjón af sviðsmyndum um aukna orkuþörf.

Í skýrslunni er að finna um 50 tillögur um leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar, en starfshópnum var falið að skoða sérstaklega sólarorku (birtuorku), sjávarorku og smávirkjanir fyrir vatnsafl sem leiðir til orkuöflunar.

Í vinnu starfshópsins kom fram að sú staðreynd að raforkuverð á Íslandi væri lágt, hefði áhrif á innleiðingu nýrra lausna fyrir bættri orkunýtni, fjölgun smávirkjana og aukinni nýtingu nýrra orkugjafa á borð við sólarorku/birtuorku og sjávarorku. Ætla megi hins vegar að samkeppnishæfni þessara valkosta aukist á næstu árum m.a. vegna tækniframfara og verðlækkana á búnaði og er það mat starfshópsins að frá árinu 2040 ætti að vera hægt, með bættri orkunýtni og nýtingu nýrra orkukosta, að útvega árlega a.m.k. 3.800 GWst af viðbótarorku, sem samsvarar um 20% af orkunotkun ársins 2022. Sú viðbótarorka samsvarar um 32% af þeirri viðbótarorku sem þarf til að uppfylla heildarorkuþörf á Íslandi árið 2040, skv. nýrri raforkuspá Landsnets 2023-2060.

Starfshópurinn kynnti skýrslu sína sem hefur að geyma um 50 tillögur sem m.a. snúa að sólarorku, sjávarorku, smávirkjunum fyrir vatnsafl, varmadæluvæðingu á smærri og stærri skala, bættri orkunýtni og sveigjanlegri orkunotkun.

Starfshópurinn var skipaður þeim Ásmundi Friðrikssyni, alþingismanni sem var formaður hópsins, Gunnlaugu Helgu Ásgeirsdóttir, MSc í sjálfbærum orkuvísindum og Lilju Rafney Magnúsdóttur, fyrrverandi alþingismanni.

Meðal þeirra tillagna sem hópurinn leggur fram er að:

  • Mótuð verði stefna og umgjörð um nýtingu sólarorku/birtuorku og sjávarorku.
  • Löggjöf verði endurskoðuð, með hliðsjón af nýtingu sólarorku/birtuorku og sjávarorku.
  • Einstaklingar, fyrirtæki og opinberir aðilar geti verið virkir notendur, þ.e. hafi kost á að framleiða og geyma orku til eigin nota, sem og selja inn á dreifikerfi eða til nágranna sinna.
  • Mótað verði einfalt og skilvirkt leyfisveitingarferli og sett upp ein gátt fyrir umsóknir um leyfi og leyfisveitingar.
  • Frá og með 2030 verði gerð krafa um að nýjar byggingar verði tilbúnar fyrir sólarsellur.
  • Ríkið verði í fararbroddi þegar kemur að nýtingu sólarorku og stefni að því að setja upp sólarsellur á opinberar byggingar á næstu árum.
  • Hugað verði að almennum reglum um staðsetningu stærri sólarorkuvera.
  • Áfram verði stutt við nýsköpunarverkefni á sviði sjávarorku.
  • Liðkað verði fyrir frekari nýtingu smávirkjana fyrir vatnsafl með einfaldari leyfisveitingum og lægri gjöldum fyrir tengingar við dreifikerfi raforku.
  • Lögð verði áhersla á bætta orkunýtni á rafhituðum svæðum, m.a. með áframhaldandi styrkjum við kaup á varmadælum og kröfum um orkusparandi búnað.
  • Áfram verði stutt við jarðhitaleit á rafhituðum svæðum.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Ég er afar ánægður með vinnu hópsins og tillögurnar sem þau hafa skilað. Það skiptir miklu máli að við lítum til allra þátta til að ná settum markmiðum um orkuskipti. Lítið skiptir líka máli og eins og niðurstöður skýrslunnar gefa til kynna þá eru miklir möguleikar í nýtingu lítilla vatnsaflsvirkjana og aðrir kostir á borð við birtuorkuver eru raunhæfur möguleiki. Ef við ættum að ramma inn niðurstöður hópsins og þær tillögur sem lagðar eru fram, þá er það að þær eru valdeflandi fyrir fjölskyldur og fyrirtæki, sérstaklega í dreifbýlinu, til að búa til orku. Það geta allir búið til orku á Íslandi og við eigum að nýta öll tækifæri. Ráðuneytið mun nú taka til ítarlegrar skoðunar þær 50 tillögur sem hópurinn hefur skilað og við hyggjumst fylgja þessu eftir.“

Bætt orkunýtni og ný tækifæri til orkuöflunar

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta