Hoppa yfir valmynd
3. maí 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Samstarfssamningur gerður við SÍS á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála ​

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, undirrituðu samstarfssamning ráðuneytisins og SÍS. - mynd

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) hafa gert með sér samstarfssamning um verkefni sveitarfélaga á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, og Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, undirrituðu samninginn.

Markmið samningsins er að styrkja samskipti og samstarf ráðuneytisins og SÍS á sviði umhverfis-, orku- og loftslagsmála, sem og að auka upplýsingamiðlun um málefni sveitarfélaga til ráðuneytisins.

Samningurinn felur í sér að SÍS mun vinna á tímabilinu að verkefnum á sviði hringrásarhagkerfis og loftslagsmála í samstarfi með viðeigandi aðilum. Meðal þeirra verkefna sem unnið verður að má nefna átakið „Samtaka um hringrásarhagkerfi“, handbók um úrgangsstjórnun, og áframhaldandi stuðning við innleiðingu Borgað þegar hent er kerfa.

SÍS mun aðstoða sveitarfélög við framkvæmd loftlagsaðgerða á sveitarstjórnarstigi í samræmi við uppfærða aðgerðaáætlun ríkisins í loftslagsmálum, stuðla að því að sveitarfélög setji sér aðgerðamiðaða loftslagsstefnu fyrir eigin rekstur á grunni nýjustu upplýsinga og leiðbeininga og vinna að sameiginlegum og samtengdum loftslagsmarkmiðum ríkis og einstakra sveitarfélaga eða landshluta í samfélagslegri losun með norrænnar fyrirmyndir til hliðsjónar. Þá mun SÍS sjá um vöktun á fyrirætlunum ESB og upplýsingagjöf til sveitarfélaga hvað varðar umhverfis-, orku- og loftslagsmál um möguleg áhrif á íslensk sveitarfélög, sem og styðja við styrkjaumsóknir sveitarfélaga vegna umhverfisumsókna í erlenda sjóði á borð við LIFEHorizon Europe og Digital Europe.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Hringrásar- og loftslagsmál eru málefni sem varða okkur öll og sveitarfélög oft og tíðum lykilframkvæmdaraðili. Það er ánægjulegt að sjá þann mikla vilja til samstarfs ólíkra aðila í þessum málaflokkum. Slíkt samstarf er nauðsynlegt og því bind ég miklar vonir við að þetta samkomulag muni gagnast okkur við að efla það á komandi árum.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta