Gott að eldast ... í Fjarðabyggð og Múlaþingi
Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) og sveitarfélögin Fjarðabyggð og Múlaþing taka nú þátt í þróunarverkefni á vegum Gott að eldast. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið auglýstu í fyrra eftir slíku samstarfi við sveitarfélög og heilbrigðisstofnanir og var áhugi fyrir þátttöku mjög mikill. Sex heilbrigðisstofnanir og 22 sveitarfélög voru valin til þátttöku í þróunarverkefnum sem ganga út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum. Á Austurlandi verður sú tilraun gerð að HSA annist alla heimaþjónustu.
Um miðjan febrúar sl. voru haldnir íbúafundir sem og fundir með kjörnum aðilum á svæðunum til að kynna verkefnið og þá vinnu sem fram undan er. Vikublaðið Austurglugginn hefur eftir Nínu Hrönn Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar hjá HSA, að fundirnir hafi verið fyrsta skref í samtali við íbúa.
Unnið sé að útfærslu verkefnisins og vonast sé til að betri mynd verði komin á það í haust. Verið sé að móta verkefnið með því að taka saman tölur og umfang þjónustu til að hægt sé að setja fram raunhæf markmið.
Nína Hrönn segir við Austurgluggann að þegar komið verði meira kjöt á beinin sé stefnan sett á að halda fleiri fundi um hvernig verkefnið verður þróað. Hún segir það ósk allra aðila sem að verkefninu koma að eiga gott samtal við íbúa og heyra þeirra raddir þannig að áherslan í þjónustunni verði sú sem íbúar óska eftir.
- Sjá nánar: Gott að eldast