Hoppa yfir valmynd
8. maí 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skýrsla Eurydice um nám til sjálfbærni í evrópskum skólum

Mennta- og barnamálaráðuneytið vekur athygli á útgáfu Eurydice-skýrslunnar: Nám til sjálfbærni í evrópskum skólum. Sjálfbærni er hluti af skyldunámi allra evrópskra skólakerfa. Þjóðirnar nálgast þó viðfangsefnið á afar fjölbreyttan hátt. Sumar þjóðir kenna um sjálfbærni, aðrar til sjálfbærni. Í sumum skólakerfum er sjálfbærni skilgreind sem sérstök grunnstoð þvert á faggreinar. Dæmi um slíka nálgun má finna í íslenska skólakerfinu en þar er sjálfbærni skilgreind meðal sex grunnþátta menntunar í aðalnámskrá, á öllum skólastigum.

Skýrslan er á vegum Eurydice-samstarfsins og sýnir samanburð um nám til sjálfbærni í evrópskum skólum. Hún fjallar um nálgun í kennslu og fræðslu um sjálfbærni á grunn- og framhaldsskólastigi og um þann stuðning sem kennurum og skólum er boðið til að mæta áskorunum framtíðarinnar. Skoðað er hvernig sjálfbærninám er innbyggt í evrópskar námskrár og að hve miklu leyti þátttökuríkin styðja við kennslu í átt að sjálfbærnihæfni en í skýrslunni er hugtakið skilgreint á grundvelli hins evrópska GreenComp viðmiðunarramma (sjá kafla 1).

Hlutverk kennara og skólastjórnenda í að efla sjálfbærni er einnig rýnt í rannsókninni, þar sem farið er til að mynda yfir það hvort þeir þættir sem koma fram í GreenComp viðmiðunarrammanum séu kenndir í grunnnámi kennara eða faglegri þróun kennara. Eins er skoðað hvort og þá hvernig stutt er við kennara í að kenna til sjálfbærni eða sjálfbærnimiðaða menntun (2. kafli). Einnig er skoðað hvernig stuðningi við skóla er almennt háttað, meðal annars hvort gefnar hafa verið út leiðbeiningar fyrir skóla um sjálfbærnimenntun og hvort og hvernig eftirliti með þessum þætti í kennslu er háttað (3. kafli).

Skýrslan tekur til grunnskólastigsins og almennra námsbrauta á framhaldsskólastigi og byggir á eigindlegum gögnum um stefnur og stuðningsaðgerðir í 39 þátttökuþjóðum en íslensk menntamálayfirvöld tóku m.a. þátt í rannsókninni.

Fjöldi menntakerfa með sjálfbærni í sinni námsskrá (ISCED 1, 24 og/eða 34), 2022/2023

Sjálfbærni snertir ekki einungis umhverfi okkar heldur einnig málefnasvið mennta- og menningarmála, sem og efnahagslíf, heilsu og félagslegt réttlæti okkar allra. Því er nauðsynlegt að menntun um og til sjálfbærni eigi sér stað innan skólakerfa allra þjóða Evrópu, þótt nálgast megi viðfangsefnið með ólíkum hætti. Í skýrslu Eurydice má sjá að sjálfbærni er mikilvægur þáttur í menntun og þjálfun barna og ungmenna í Evrópu. Er það meðal helstu niðurstaðna nýrrar Eurydice-skýrslu um nám til sjálfbærni í evrópskum skólum.

Niðurstöður skýrslunnar benda meðal annars til að þátttökuþjóðirnar 39 nálgist viðfangsefnið með fjölbreyttum hætti. Einnig að yfirgnæfandi meirihluti evrópskra nemenda læri um sjálfbærni eða til sjálfbærni á einn eða annan hátt og eigi þannig möguleika á að geta orðið virkir þátttakendur í að skapa sjálfbær samfélög. Sum evrópsk skólakerfi skilgreina sjálfbærni sem sérstaka grunnstoð í námskrám sínum eins og gert er á Íslandi. Önnur þátttökuríki nálgast viðfangsefnið með verkefnamiðuðum hætti. Enn aðrar þjóðir skilgreina sjálfbærni sem sérstaka faggrein í skólum. Í Eurydice-skýrslunni sem kom út þann 16. apríl 2024 er hægt að nálgast ítarlegar upplýsingar um sjálfbærnimenntun, bera saman nálgun þjóða og skoða áherslur í sjálfbærnimenntun.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta