Hoppa yfir valmynd
15. maí 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ísland í öðru sæti á Regnbogakorti ILGA og í efsta sæti á réttindakorti trans fólks í Evrópu

Ísland tekur stökk á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA Europe) og er nú í öðru sæti en niðurstöðurnar voru kynntar í dag á árlegum samráðsfundi IDAHOT+ FORUM (International Day Against Homophobia and Transphobia) sem haldin er í Haag í Hollandi í ár.

Evrópusamtök hinsegin fólks birta árlega Regnbogakort í kringum alþjóðlegan baráttudag hinsegin fólks sem er 17. maí. Kortið sýnir á myndrænan hátt stöðu og réttindi hinsegin fólks í 49 ríkjum Evrópu. Réttindakort trans fólks í Evrópu (Trans Rights Map 2024) sýnir á sama hátt stöðu trans fólks og þar er Ísland í efsta sæti eins og í fyrra.

Frá 2018 hefur Ísland farið upp um 16 sæti á Regnbogakortinu en það ár var Ísland í 18. sæti. Nú er Ísland eins og áður sagði komið upp í annað sæti en í fyrsta sæti er Malta, en á eftir Íslandi kemur Belgía, þá Spánn og Danmörk.

Frá því að síðasta Regnbogakort var birt í maí 2023, þar sem Ísland var í 5. sæti, hefur Alþingi samþykkt lög sem banna bælingameðferðir en einnig fær Ísland nú stig fyrir atriði sem tengjast hegningarlagaákvæðum um hatursglæpi og lagaákvæðum um réttindi trans fólks.

Fyrsta aðgerðaráætlun um stefnu stjórnvalda í málaflokknum var samþykkt á Alþingi 2022. Framgangur verkefna aðgerðaráætlunarinnar er birtur á mælaborði sem nýlega hefur verið uppfært. Þar sést að góður gangur er á verkefnum og flest þeirra er annaðhvort hafin eða komin vel á veg.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta