Forsætisráðherra fundaði með varaforseta kínverska ráðgjafarþingsins
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók í dag á móti Shi Taifeng, varaforseta kínverska ráðgjafarþingsins, á ferð hans um Norður-Evrópu.
Á fundinum var rætt um góð samskipti ríkjanna, vaxandi viðskipti og ferðamannastraum frá Kína ásamt samstarfi á sviði jarðhitanýtingar og kolefnisbindingar sem er mikilvægur liður í vinnu gegn loftslagsbreytingum. Í ár eru tíu ár liðin frá því að fríverslunarsamningur ríkjanna gekk í gildi og var framkvæmd hans og möguleg uppfærsla einnig til umræðu.
Forsætisráðherra lagði áherslu á að Kína leggi sitt af mörkum til að styrkja virðingu fyrir alþjóðalögum, þ. á m. mannréttindum og hafrétti. Í þessu samhengi tók hann einnig upp ólöglegt innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og hvernig afstaða Kína geti skipt máli í þágu réttláts friðar.