Skóflur á loft í tilefni 150 ára afmæli Einars Jónssonar
„Ég óska okkur öllum til hamingju með 150 ára afmæli Einars Jónssonar og megi töfrar verka hans opna okkur sýn í huliðsheima um ókomna tíð,“ var meðal þess sem menningar- og viðskiptaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir sagði í hátíðarávarpi sínu í Listasafni Einars Jónssonar síðast liðin laugardag þegar 150 ár voru liðin frá fæðingu listamannsins. Við það tilefni fór ráðherra yfir sögu þessa merka manns og heiðraði minningu hans með því að taka fyrstu skóflustunguna að nýrri þjónustubyggingu sem mun tengja hina glæsilegu safnabyggingu Hnitbjörgu við garðhúsið. Mun nýja byggingin bæta aðgengi gesta til muna sem og starfsumhverfi starfsmanna en byggingarnar sjálfar og garðurinn sem þær umlykur eru ekki síður listaverk líkt og fjölmargir landsmenn þekkja. Töfrar Einars Jónssonar munu því í framtíðinni flæða óhindrað milli rýma og landsmönnum og gestum til ómældrar ánægju.
Ávarp ráðherra má lesa í heild hér að neðan:
„Einar Jónsson fæddist 11. maí 1874 þegar íslenska þjóðin hélt upp á þúsund ára afmæli landnáms og nú höldum við upp á 150 afmæli listamannsins á 80 ára afmæli lýðveldisins.
Einar Jónsson fæddist á Galtafelli í Hrunamannahreppi og var strax í bernsku ákveðinn í að gerast myndlistarmaður og sótti fast að komast til Kaupmannahafnar í listnám, sem hann og gerði og lauk þaðan listnámi í Listaháskólanum.
Alþingi styrkti Einar til námsdvalar í Róm og einnig ferðaðist hann um alla Evrópu til að drekka í sig listina. Framan af starfsævi Einars var hann nálega sá eini íslenski listamaður sem þekktur var utan landsteinanna.
Myndskáldið Einar Jónsson skapaði sér ákveðna sérstöðu með að brjóta hefðir í sinni listsköpun og náði þannig að skapa sér nafn í hinum alþjóðlega listheimi.
Eftir 30 ára dvöl í útlöndum kom Einar heim til Íslands og færði jafnframt þjóðinni að listaverk sín að gjöf gegn því að yfir þau yrði byggt hús til varðveislu.
Listasafn Einars Jónssonar er meðal merkustu menningarverðmæta landsins og kemur þar margt til. Í fyrsta lagi er hér geymt listasafn frumkvöðuls í íslenskri myndlist, þess fyrsta sem gerði myndlist að sínu ævistarfi. Safnbyggingin sjálf, Hnitbjörg, er síðan listaverk út af fyrir sig og var reist eftir uppdrætti listamannsins sjálfs í samvinnu við Einar Erlendsson arkitekt. Þakíbúðin er talin vera sú fyrsta sinnar tegundar í Reykjavík og þjónar hún sem lítið minjasafn þar sem varðveittar eru persónulegar eigur og munir sem snerta feril Einars Jónssonar og Önnu Marie Mathilde Jörgensen eiginkonu hans. Anna var einnig frumkvöðull að því leiti til að hún var ein af fyrstu konunum til að veita stofnun á Íslandi forstöðu. Í þriðja lagi þá er höggmyndagarðurinn á lóð safnsins töfraveröld sem þjónar bæði nærsamfélaginu og ferðamönnum.
Safnið var opnað á Jónsmessudag 24. júní árið 1923 og er fyrsta listasafnið sem opnað var almenningi hér á landi. Meginhlutverk safnsins er að safna, varðveita, skrásetja, rannsaka og miðla þekkingu um verk Einars og lífsstarf hans. Safnið var einnig vinnustofa Einars og eftir að hann var alfarið kominn heim vann hann sleitulaust að listinni það sem eftir lifði og andaðist nánast með leirinn í höndunum áttræður að aldri.
Safnbyggingin er eitt af sköpunarverkum listamannsins og er alfriðað hús enda þykir hún einstök í íslenskri byggingarlist. Húsið var allt í senn íbúðarhús, vinnustofa og safn sem geymir ævistarf eins af okkar merkari listamönnum. Hér er hægt að týna sér í hinum „hvíta kynjaskógi“ eins og Björn Th. Björnsson, listfræðingur komst að orði.
Þegar húsnæðið var farið að þrengja að þeim hjónum var ráðist í byggingu á íbúðarhúsi fyrir þau. Það þjónar nú sem skrifstofa og vinnuaðstaða starfsmanna. Nú mun verða tekin skóflustunga að þjónustubyggingu sem tengir Hnitbjörg við garðhúsið og bæti þannig aðgengi gesta og starfsumhverfi starfsmanna.
Ég óska okkur öllum til hamingju með 150 ára afmæli Einars Jónssonar og megi töfrar verka hans opna okkur sýn í huliðsheima um ókomna tíð.“
Mynd: Ráðherra ásamt Pétri Ármannssyni og Ölmu Dís Kristinsdóttur safnstjóra Listasafns Einars Jónssonar.