Tvíhliða samstarf Íslands og Þýskalands til umræðu á fundum ráðuneytisstjóra
Ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, Martin Eyjólfsson, átti pólitískt samráð í vikunni með kollegum sínum í utanríkis-, varnarmála- og þróunarsamvinnuráðuneytum Þýskalands. Fundað var með ráðuneytisstjórum sem fara með mannréttindi og fríverslun, alþjóða- og öryggispólitík, varnarpólitík og alþjóðlega þróunarsamvinnu, auk þess sem fundað var með Evrópumálaráðherra Þýskalands. Umræður snerust að miklu leyti um stuðning ríkjanna við Úkraínu, ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs og stöðu alþjóðamála í víðara samhengi, sem og mögulega samstarfsfleti Íslands og Þýskalands í Evrópu og víðar.
Auk funda í ráðuneytum leiddi ráðuneytisstjóri viðburð á vegum hugveitunnar IISS um þróun öryggisumhverfisins á norðurslóðum og fundaði með formanni Öryggisráðstefnunnar í München um þátttöku íslenskra ráðamanna á viðburðum Öryggisráðstefnunnar.