Verknámsaðstaða Verkmenntaskólans á Akureyri stækkar um allt að 1.500 fermetra
Allt að 1.500 fermetra viðbygging fyrir verk- og starfsnám mun rísa við Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA). Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði samning þess efni við sveitarfélögin við Eyjafjörð í dag.
Samningurinn staðfestir samkomulag ríkis og sveitarfélaganna um fjármögnun verkefnisins og eru næstu skref undirbúningur, hönnun og bygging. Uppbygging verk- og starfsnáms er eitt af stefnumálum Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, og ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Stefnt er að því að byggja samtals 12.000 fermetra fyrir verk- og starfsnám um allt land auk nýrra höfuðstöðva Tækniskólans til að mæta aukinni aðsókn á undanförnum árum.
„Mikil eftirspurn er í starfsnám og þarf á hverju ári að vísa umsækjendum frá. Við erum með lægsta hlutfall nemenda á Norðurlöndum í starfsnámi. Samfélagið hefur tekið miklum breytingum og atvinnulífið kallar á iðnmenntað starfsfólk. Stækkun Verkmenntaskólans á Akureyri er mikilvægur áfangi í eflingu starfsnáms á Íslandi til að mæta þörfinni og mikilvæg innspýting í skólasamfélagið á Akureyri,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, en með stækkun verknámsaðstöðu Menntaskólans á Ísafirði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra sem samið var um í síðasta mánuði mun aðstaða til verk- og starfsnáms á norðanverðu landinu aukast um samanlagt allt að 5.800 fermetra.
Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir annast frumathugun, framkvæmd og eftirlit. Stofnkostnaður skiptist þannig að ríkissjóður mun greiða 60% en sveitarfélögin við Eyjafjörð 40%.